Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Spennan verður í Reykjavík

Mynd: Háskóli Íslands / Háskóli Íslands
Rúmar þrjár vikur eru þar til kosið verður til sveita- og bæjarstjórna, laugardaginn 14. maí. Borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík eru þær viðamestu, enda langstærsta sveitarfélagið.

Framboðsfundir á Rás 2 og ruv.is

Í dag hefjast framboðsfundir á Spegilstíma á Rás 2 og á vefnum ruv.is þar sem frambjóðendur í stærstu sveitarfélögunum takast á um helstu kosningamálin. Frambjóðendur í Kópavogi ríða á vaðið í kvöld, 20.apríl - síðasta vetrardag.  Á föstudag, 22. apríl, verður kosningafundur á Akureyri, á mánudag, 25. apríl, í Reykjavík o.sv.frv. 

Kosningabaráttan varla hafin

Eva Marín Hlynsdóttir stjórnmálafræðingur og prófessor við Háskóla Íslands segir kosningabaráttuna varla hafna. Það sé svo sem gömul saga og ný að kosningabarátta fyrir komandi kosningar hverju sinni þyki með eindæmum daufleg, en svo geti allt farið snögglega í gang. 

Sumir ekki áttað sig á kosningar séu í nánd

„Það fer nú ekki mikið fyrir kosningaumræðu enn þá, t.d. á vefnum, tímaritum, dagblöðum, samfélagsmiðlum. Þetta er meira inni í flokkunum, inni í einhverjum hópum. Það er ekki mikil samfélagsleg umræða um kosningarnar. Maður heyrir jafnvel af fólki sem er ekki enn búið að átta sig á að það eru sveitarstjórnarkosningar í nánd" segir Eva Marín. 

Spennan felst í því hvað Framsókn gerir

Hún segir að spennan sé í Reykjavík. Það hafa ekki margar skoðanakannanir birst, enda langt í kjördag.  Hún segir að staða Framsóknarflokksins sé athyglisverð. Hann eigi ekki borgarfulltrúa, en kannanir hafi sýnt að flokkurinn komi jafnvel þremur mönnum að. Þá vakni spurningin í hvorum meirihlutanum þeir verði.

„Þar er kannski spennan. Hvað gerir Framsókn?"  segir Eva Marín. Hún segir samgöngu- og húsnæðismál, þétting byggðar og leikskólamál verða helstu kosningamálin í höfuðborginni.  

Hlusta má á viðtalið við Evu Marín í spilaranum hér að ofan. 

 

 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV