Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Fyrsta kjötkveðjuhátíðin frá því faraldurinn skall á

epa09896484 Cheerleaders rehearse in front of the Museum of Tomorrow prior to the World Paper Plane Championship, in Rio de Janeiro, Brazil, 18 April 2022.  EPA-EFE/Antonio Lacerda
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Kjötkveðjuhátíð verður haldin með pomp og prakt í brasilísku borginni Rio de Janeiro um komandi helgi. Skipuleggjendur heita stórkostlegri skemmtun eftir tveggja ára eyðimerkurgöngu vegna kórónuveirufaraldursins.

Hátíðahöldunum í upphafi lönguföstu var aflýst á seinasta ári og frestað um tvo mánuði í ár af ótta við nýja bylgju faraldursins. „Til að bjarga mannslífum“ eins og fram kom í yfirlýsingum stjórnvalda. 

Litríkar skrúðgöngur glaðværs fólks hafa löngum laðað að sér hundruð þúsunda ferðamanna og því kveðst Bianca Monteiro við Portela-sambaskólann búast við að hátíðahöldin í ár verði einstök. 

Sambaskólar borgarinnar eru í fararbroddi skrúðgangnanna ár hvert en Portela er sá skóli sem hefur oftast unnið til verðlauna. Monteiro segir að ætlunin sé að fagna lífinu og minnast þeirra sem látist hafa af völdum sjúkdómsins eða eiga um sárt að binda vegna hans. 

Eduardo Paes borgarstjóri segist hafa saknað hátíðarinnar mjög enda sýni hún og sanni hve glaðsinna og umburðarlynt fólk Brasilíumenn séu.

Hátt á sjöunda hundrað þúsund Brasilíumanna hafa látist af völdum COVID en nú hafa 75 af hundraði landsmanna þegið bólusetningu og andlátum hefur fækkað úr þrjú þúsund á viku niður fyrir hundrað.

Þátttakendum og gestum kjötkveðjuhátíðarinnar er þó gert að sýna fram á bólusetningu ætli þeir sér að dansa um stræti og torg Ríó de Janeiró um næstu helgi.