Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Sýrudjass og draugabær

Mynd með færslu
 Mynd: Of Monsters And Men

Sýrudjass og draugabær

19.04.2022 - 18:01

Höfundar

Undiraldan fer um víðan völl á þessum sólríka þriðjudegi, en akureyskt rokk, sýru-geim-djass og hamingjan sjálf eru meðal þess sem er á dagskrá.

Miomantis - Mexico Drug Lord Blues

Miomantis er rokkhljómsveit frá Akureyri og tilheyrir nýju samlagi sem hefur starfað fyrir norðan síðan í fyrra; Akureyri Rock & Metal Collective. Þrátt fyrir stuttan starfsaldur, en fyrsta útgáfa sveitarinnar er skráð 2020, hefur sveitin þegar sent frá sér þrjár stuttskífur. Nú síðast kom út í gær stuttskífan The Mantis. Þar birtist þetta kraftmikla lag; Mexico Drug Lord Blues.


Doctor Victor, Rokky - Falling

Ef þú ert í brýnni þörf fyrir rafpopp-sumarsmell, ágæti hlustandi, þá þarftu líklega ekki að leita lengra. Doctor Victor og Rokky gáfu út nýtt lag síðasta föstudag, lagið Falling.


Bjartmar - Ghost Town

Ghost Town nefnist nýjasta lag Bjartmars sem kom út síðasta föstudag. Um er að ræða drungalegt raf-popp sem tekst á við þekkt þemu, ást og skuldbindingu, með drungalegum myndlíkingum.


Of Monsters And Men - This Happiness

Indí-stórstjörnurnar í OMAM hafa sent frá sér nýtt lag, This Happiness, þriðju smáskífuna síðan síðla árs 2020. Það er ekki laust við að aðdáendur sveitarinnar séu orðnir örlítið óþreyjufullir eftir nýrri plötu - en þeir geta nú tekið gleði sína þar sem sveitin tilkynnti samhliða útgáfu dagsins að von væri á stuttskífunni TÍU tíunda júní næstkomandi.


Silva Þórðardóttir, Steingrímur Teague - If It Was (feat. Jóel Pálsson)

If It Was er nýjasta afurð samstarfs þeirra Silvu Þórðardóttur og Steingríms Teague, en hér njóta þau vinirnir einnig liðsinnis Jóels Pálssonar sem annast saxófónleik. Um er að ræða lágstemmt djass-skotið popplag af bestu gerð.


Kailash Youze, Cosmic Dub Hop - Acid Space Jazz

Karl Kristján Davíðsson eða Kailash Youze tilheyrði áður hipp-hopp hópnum Subterranean en hefur nú sent frá sér nýja sólóplötu. Platan heitir The Hip Hop Sutraz, en nafnið er eiginlega smá blekkjandi því innihald plötunnar er gríðarlega fjölbreytt - enda inniheldur hún hvorki meira né minna en 28 lög. Lagið Acid Space Jazz var unnið í samstarfið við bassaleikarann Andreds Tosh, en saman ganga þeir félagar undir nafninu Cosmic Dub Hop.