
Stuðningsmenn Frakklandsforseta vara við bjartsýni
Nýjustu kannanir sýna að Macron fær 53 til 56 prósenta fylgi í kosningunum, Le Pen 44 til 47 prósent. Stuðningsmenn hans vara þó við því að sigurinn sé öruggur. Of margir kjósendur séu tvístígandi eða ætli hreinlega ekki að mæta á kjörstað. Þeirra á meðal er Edouard Philippe, borgarstjóri í LeHavre og fyrrverandi forsætisráðherra. Jean Castex, núverandi forsætisráðherra, segir að baráttan sé ekki á enda fyrir Macron þrátt fyrir gott gengi í skoðanakönnunum.
Sjálfur segir Macron að kjósendur megi ekki taka úrslitunum sem gefnum líkt og gerðist í Brexit kosningunum í Bretlandi og þegar Donald Trump hafði betur gegn Hillary Clinton þótt skoðanakannanir sýndu annað.
Einu kappræður forsetaframbjóðendanna verða í beinni útsendingu í sjónvarpi annað kvöld. Fréttaskýrendur gera ráð fyrir að Macron segi Le Pen hættulegan öfgasinna sem ekki sé treystandi í utanríkismálum. Búist er við að hún reyni að sannfæra kjósendur um að hún og flokkur hennar hafi breytt um stefnu í umdeildum málum. Hún ver deginum í dag með nánustu ráðgjöfum sínum og undirbýr sig fyrir kappræðurnar sem hefjast klukkan sjö að íslenskum tíma.