Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Yfirvöld þurfa að taka fast á hatursorðræðu

18.04.2022 - 19:44
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Ef hatursorðræða hefur engar afleiðingar fyrir þann sem tjáir sig með þeim hætti, getur skapast ákveðin viðurkenning á að hún sé í lagi. Þetta segir Eyrún Eyþórsdóttir, doktor í mannfræði og lektor í lögreglufræði.

Tók út frétt vegna rasískra ummæla

Ritstjóri Kjarnans tók í gær úr birtingu frétt, sem unnin var upp úr viðtali við Lenyu Rún Taha Karim, varaþingmann Pírata, vegna viðbragða á samfélagsmiðlum, sem ritstjórinn segir að ekki sé hægt að lýsa öðruvísi en sem persónuárásum, rasisma og hatursorðræðu.

Í viðtalinu lýsir Lenya Rún meðal annars svívirðingum og rasisma sem hún hefur mátt þola vegna uppruna síns.

Eyrún segir ósanngjarnt að ætlast til þess að fólk sem tilheyrir minnihlutahópum taki þennan slag. Það hermi upp á yfirvöld að taka á slíkum málum af festu. „Það hefur ekkert heyrst í yfirvöldum, þau hafa ekki fordæmt að það sé sett fram svona hatur gagnvart ákveðnum þegnum samfélagsins, og það er miður, víða erlendis hafa yfirvöld sett fram áætlanir, sett fram peninga, búið til hatursglæpadeildir hjá lögreglu og annað slíkt, þar sem það er lagður þungi á að vinna gegn þessu,“ segir Eyrún. Slíkt sé ekki uppi á teningnum hér. Eyrún var áður yfir hatursglæpadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Engin slík deild er lengur starfrækt.

Lenya Rún hefur áður birt á Twitter skjáskot af ummælum sem hafa fallið um hana á samfélagsmiðlum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Twitter - RÚV

„Það að fólk komi fram undir nafni og tjái sig með þessum hætti, það má kannski rekja til þess að það hafa í raun og veru verið litlar afleiðingar fyrir fólk hérlendis, sem hafa tjáð sig með þessum hætti,“ segir Eyrún. „Það hefur kannski bara skapast fordæmi á Íslandi fyrir hatursáróður og ef þetta er látið kjurt liggja þá skapast ákveðin viðurkenning á því að þetta sé bara í lagi.“

Ábyrgð ráðamanna

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, hefur verið kærður til forsætisnefndar fyrir brot á siðareglum Alþingis, eftir að hann lét ósæmileg ummæli falla um konu af erlendum uppruna. Sigurður Ingi baðst afsökunar á ummælunum, en sagði ekki tilefni til að stíga til hliðar. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur ekki náðst í Sigurð Inga.

„Hatursorðræða er þess eðlis að því sem þekktari og valdameiri aðilar setja hana fram, þá hefur hún verri áhrif út í samfélagið,“ segir Eyrún.

„Þá erum við kannski farin að tala um fólk sem nýtur trausts hjá ákveðnum aðilum, hjá ákveðnum hópum samfélagsins, sem að þá taka þetta trúanlega, og fara jafnvel að tala með sama hætti vegna þess að það hugsar sem svo að ef yfirmenn þjóðarinnar geta leyft sér að tala með þessum hætti þá er það í lagi,“ segir Eyrún. „Þannig að það er mjög slæmt.“