Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Táningspiltur skotinn í bringuna í Stokkhólmi

18.04.2022 - 01:28
Mynd með færslu
 Mynd: SVT
Piltur á táningsaldri var skotinn í bringuna í Skarpnäck-hverfinu í Stokkhólmi í kvöld, en lifði árásina af og hringdi sjálfur í neyðarlínuna. Lögregla er með mikinn viðbúnað og fjölmennt lið í hverfinu.

Lögreglu barst tilkynning um skothvell í Skarpnäck í suðurbæ Stokkhólms skömmu fyrir miðnætti að staðartíma. Skömmu síðar hringdi ungur maður og sagðist hafa verið skotinn. „Hann forðaði sér sjálfur af vettvangi og hafði samband við okkur,“ segir Anna Westberg, talskona Stokkhólmslögreglunnar, í samtali við sænska ríkissjónvarpið SVT.

Pilturinn var fluttur á sjúkrahús en ekki liggur fyrir hversu alvarleg meiðsl hans eru. Málið er rannsakað sem morðtilraun en lögreglu hafði ekki tekist að finna vettvang árásarinnar þegar frétt SVT var skrifuð og enginn verið handtekinn.  
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV