Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Nýtt fyrirkomulag í íþróttaæfingum yngstu barna

Mynd með færslu
 Mynd: Höttur

Nýtt fyrirkomulag í íþróttaæfingum yngstu barna

18.04.2022 - 13:21
Íþróttafélagið Höttur á Egilsstöðum ætlar að taka upp nýtt fyrirkomulag í æfingum yngstu barna. Börnin þurfa ekki að velja á milli íþróttagreina heldur mega prófa allt. Þetta getur seinkað framförum fyrst um sinn en líka minnkað brottfall úr íþróttum.

 

Íþróttasamband Íslands hefur unnið að því að betrumbæta íþróttastarf barna þannig að íþróttir byggi upp öfluga einstaklinga - ekki aðeins afreksmenn. Ef illa er staðið að málum geta börn sem ekki eru í fremstu röð í raun hlotið skaða á sjálfsmynd, gefist upp og misst af ávinningi íþrótta.

Ýmislegt hefur verið gert til að minnka samanburðinn, til dæmis að tilkynna síður um úrslit í yngstu aldurshópum og jafna leikinn með ýmsum hætti. 

Val á íþróttagrein skiptir líka máli og hefur ÍSI hvatt félög til að hafa framboð fjölbreytt. 

Börn þurfa oft að velja grein snemma því ómögulegt er að taka fullan þátt í mörgum greinum og fjárhagur foreldra leyfir ekki slíkt. Þannig getur barn neyðst til að velja snemma eða þarf að hætta og byrja í öðru sem getur verið erfitt. Höttur á Egilsstöðum kynnti nýverið nýtt fyrirkomulag á æfingum barna í fyrsta og öðrum bekk sem á að bæta úr þessu. Foreldrar borga eitt gjald og barnið má þá æfa hvaða grein sem er. Þá eru æfingum í hverri grein fækkað og æfingatími samstilltur. Félagið fékk Svein Þorgeirsson aðjúnkt við Íþróttafræðisvið HR til liðs við sig. 

„Til lengri tíma þá ætti ávinningurinn helst að vera sá að það yrði betri ástundun, minni brottfalli til lengri tíma. Fjölbreyttari grunnur þar sem krakkarnir þróa með sér fjölbreyttari og betri grunnhreyfifærni. Og það er ekkert fyrr en við komum inn á kynþroskaaldurinn sem við sjáum hvaða líkamsburði einstaklingarnir hafa. Hvar þeir muni koma til með að finna sig ekki bara líkamlega heldur líka andlega,“ segir Sveinn Þorgeirsson.