Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Yfir 170 hafa fundist látin eftir storm á Filippseyjum

17.04.2022 - 07:26
epa09887998 A photo taken with a drone shows a collapsed mountain side and buried houses in Bunga village, Baybay city, Leyte island, Philippines, 12 April 2022 (issued 13 April 2022). According to the National Disaster Risk Reduction and Management Council (NDRRMC), the death toll, on April 13, rose to 63 and over 100 people were injured while 27 are missing brought about by Typhoon Megi. Megi is the first weather disturbance to hit the country in 2022.  EPA-EFE/DELPHI ALLERA BEST QUALITY AVAILABLE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Lík 172 karla, kvenna og barna hafa fundist í rústum og ruðningum í Leyte-héraði á samnefndri eyju um miðbik Filippseyja eftir öflugasta hitabeltisstorm sem gengið hefur yfir eyjarnar það sem af er þessu ári, og yfir 100 er enn saknað. Yfirvöld á Filippseyjum greindu frá þessu í morgun.

Flest hinna látnu bjuggu í þorpum og sveitum umhverfis borgirnar BayBay og Abuyog í Leyte-héraði. Þar féllu fjölmargar aurskriður í úrhellinu sem fylgdi storminum Megi þegar hann skall á eyjunum síðastliðinn sunnudag.

Feikilegt tjón varð á náttúru og mannvirkjum; ár flæddu yfir bakka sína, stórar aurskriður féllu úr fjallshlíðum og færðu hálfu og heilu þorpin á kaf í eðju, vegir og brýr fóru í sundur, fjarskipta-, rafmagns- og vatnslagnir skemmdust eða eyðilögðust og yfirvöld telja að um tvær milljónir manna hafi orðið fyrir tjóni af einhverju tagi vegna stormsins. Leyte er um 600 kílómetra suður af jöfuðborginni Manila.
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV