Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Evrópuþingið ætlar að endurheimta peningana

epaselect epa09890056 French far-right Rassemblement National (RN) party candidate for the French presidential election Marine Le Pen waves as she arrives on stage for a campaign rally in Avignon, France, 14 April 2022. The second round of the French presidential election will take place on 24 April 2022 with Le Pen running in a face-off against incumbent French President and candidate for re-election Emmanuel Macron.  EPA-EFE/GUILLAUME HORCAJUELO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Evrópuþingið tilkynnti í dag um að það ætli sér að reyna að endurheimta það fjármagn sem Marine Le Pen, franskur forsetaframbjóðandi, var í gær sökuð um að hafa dregið sér á meðan hún gegndi Evrópuþingmennsku.

AFP greinir frá þessu og hefur eftir heimildarmanni að unnið sé að því að endurheimta peningana af Le Pen og þremur öðrum sem sakaðir eru um fjárdrátt.

Franski miðillinn Mediapart greindi frá því í gær að stofnun ESB gegn fjársvikum saki Marine Le Pen, Jean-Marie Le Pen föður hennar, Louis Aliot, fyrrverandi maka hennar auk fyrrverandi Evrópuþingmannsins Bruno Gollnisch um að draga að sér alls rúmlega 600.000 evrur.

Í nýrri skýrslu stofnunarinnar er Le Pen sökuð um að hafa nýtt peningana til þess að fjármagna pólitískt starf heima fyrir og persónulega neyslu.

Le Pen mætir Emmanuel Macron Frakklandsforseta í seinni umferð frönsku forsetakosninganna næstu helgi, en þau fengu flest atkvæði í fyrri umferðinni. Macron mælist nú með á bilinu fjögurra til tíu prósentustiga forskot í allflestum skoðanakönnunum fyrir seinni umferð kosninganna.

Rannsókn Evrópustofnunarinnar hófst árið 2016 og þurfti Le Pen að gefa skýrslu bréfleiðis í mars í fyrra. Hún var einnig til rannsóknar árið 2017 vegna gruns um að hún hafi ráðið uppskáldaða aðstoðarmenn til vinnu á meðan hún sat á Evrópuþinginu.

Þórgnýr Einar Albertsson