Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Úkraínustríðið eykur á neyð fólks víða um heim

epa09883912 Types of imported grains are displayed for sale amid a food price spike at a market in the old city of Sana'a, Yemen, 10 April 2022. War-ravaged Yemen is experiencing a significant food price spike and food insecurity because of seven years of prolonged conflict, as well as the Russian invasion of Ukraine. The impoverished Arab country imports almost 90 percent of its overall food supply, including over 30 percent of wheat imports coming from Ukraine and at least eight percent from Russia. The United Nations has warned that over 17.4 million Yemenis out of the country's 30-million population experience severe food insecurity and around 161,000 people are likely to experience famine in 2022.  EPA-EFE/YAHYA ARHAB
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Sameinuðu þjóðirnar vara við því að innrás Rússa í Úkraínu auki enn á neyð fólks sem býr við örbirgð og hungur og segja stríðið hafa neikvæð áhrif á líf allt að 1.700 milljóna manna sem þegar eru í viðkvæmri stöðu. Samtökin hafa veitt 100 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði 13 milljarða króna, úr neyðarsjóði sínum til að fjármagna matvælaaðstoð til sjö landa sem eru sérlega viðkvæm fyrir matarskorti; Jemen, Sómalíu, Eþíópíu, Kenía, Súdan, Suður-Súdan og Nígeríu.

Stephane Dujarric, talsmaður Antonios Guterres, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, greindi frá aukafjárveitingunni í gærkvöld. Hann sagði að þótt vopnuð átök, þurrkar og efnahagsþrengingar væru meginástæða matvælaskorts og -óöryggis í viðtökulöndunum sjö, þá hafi innrásin í Úkraínu „gert skelfilegt ástand enn verra.“

Stríðið þar hafi sett „hvorutveggja orku- og matvælamarkað í uppnám og hækkað verð á innfluttum vörum umfram það sem neytendur ráða við,“ sagði Dujarric. Er það mat sérfræðinga Sameinuðu þjóðanna að Úkraínustríðið geti með þessum hætti haft neikvæð áhrif á líf allt að 1.700 milljóna Jarðarbúa sem ýmist líði skort nú þegar eða eru á mörkum þess að hafa í sig og á.

Miklar verðhækkanir á nauðsynjum vegna stríðsins

Um þriðjungur alls hveitis og byggs er ræktaður í Úkraínu og Rússlandi og þangað sækja minnst þrjátíu og sex ríki meira en helminginn af hveitibirgðum sínum, þar á meðal nokkur af fátækustu ríkjum heims. Verð á korni og öðrum grunnmatvælum hefur hækkað um þriðjung frá síðasta ári og hráoliuverð um 60 prósent, en Rússar eru á meðal mestu olíu- og gasframleiðenda heims.

Þá hefur heimsmarkaðsverð á tilbúnum áburði nær tvöfaldast á milli ára, sem líka má rekja til Úkraínustríðsins af tveimur ástæðum: Hærra orkuverði sem sem hækkar framleiðslukostnað, og minna framboði, því um fimmtungur áburðarins er í venjulegu árferði fluttur út frá Rússlandi og Hvíta Rússlandi.