Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Nokkur hundruð manns á mótmælafundi á Austurvelli

15.04.2022 - 14:26
Mynd með færslu
 Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir - RUV
Nokkur hundruð manns eru samankomin á Austurvelli til að mótmæla sölu ríkisins á hlutum í Íslandsbanka og þeim var aðferðum sem beitt var við söluna. Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, var ein þeirra sem flutti ræðu á Austurvelli í dag og sagði það kröfu mótmælenda að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra víki.

Að mótmælafundinum standa UNG Así, Jæja-hópurinn, Ungir Píratar, Ungir jafnaðarmenn og Ungi Sósíalistar. 

Salan hefur verið umdeild en starfsmenn Ríkisendurskoðar hófu vinnu í vikunni við að safna gögnum og upplýsingum um útboð á 22,5 prósenta hlut ríkisins í Íslandsbanka í mars. Auk Ríkisendurskoðunar hefur fjármálaeftirlit Seðlabankans staðfest að það rannsaki tiltekna þætti sem tengjast sölunni á Íslandsbanka. Fjármálaeftirlitið hefur ekki tilgreint að hverju sú rannsókn snýst en í ljósi eftirlitshlutverks Seðlabankans má gera ráð fyrir að hún beinist frekar að fjármálamarkaðnum sjálfum meðan Ríkisendurskoðun horfir til ríkisins.

60 fjárfestar sem keyptu hlutabréf í Íslandsbanka í lokuðu útboði eru ekki á hluthafalistanum í dag. Af gögnum Bankasýslu ríkisins má ráða að um fjórðungur þeirra hafi selt sinn hlut. Auk þess hafa 34 selt hluta af bréfunum sem þeir keyptu.