Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Í bláendanum er blús

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Björgvinsson - NASA

Í bláendanum er blús

15.04.2022 - 10:00

Höfundar

Á norðurhveli er fyrsta algera sólóplata Jónasar Björgvinssonar þó hann hafi átt þátt í ýmsum tónlistarverkefnum í gegnum tíðina. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

 

Jónas Björgvinsson rekur meðal annars hljóðverið hljodver.is, var í trúbador-dúettinum Ég og Jónas, og árið 1998, fyrir nærri kvartöld, kom út platan Haust með hljómsveitinni Ummhmm (sem streymir nú á Spotify undir nafni Jónasar). Þessi plata var í vinnslu allt síðasta ár og að henni koma Birgir Baldursson á trommur, Tómas Jónsson á orgel og hljómborð og Ómar Guðjónsson á gítara, bassa og slagverk. Ómar stýrir einnig upptökum. Jónas syngur og leikur á munnhörpu og slagverk en um hljóðblöndun sér Jóhann Rúnar Þorgeirsson. Hans Júlíus Þórðarson og Tindra Gná Birgisdóttir syngja bakraddir og Guðmundur Kristinn Jónsson sér um hljómjöfnun.

Tónlistin er til þess að gera einföld, blússkotin alþýðutónlist en er um leið dálítið tvískipt að því leytinu til. Jónas vinnur með poppskotna, bjarta blúsa og þar er hans heimahöfn en í myrkari, rótgrónari blúsum á honum til að fatast flugið.

Fyrsta lagið er dægilegt og vel það. Þetta titillag plötunnar er melódískt mjög, blúslitað, og rennur ljúflega áfram og næsta áreynslulaust. Maður tekur strax eftir því hversu sterkur allur undirleikur er og það kemur ekki á óvart, þið voruð búin að sjá mannvalið. Söngrödd Jónasar er ekki sérstaklega sterk, verður að segjast, en í þessu lagi lætur hann hana vinna með sér, syngur tiltölulega hátt og nær þannig að knýja fram áhrifaríkan viðkvæmnisbrag sem fellur ágæta vel að textanum.
Dæmi um hina hliðina á plötunni kemur strax í næsta lagi. Það er eins og Glópagull viti ekki almennilega hvert það eigi að fara eða hvað það vilji vera. Rótlaust reikar það áfram í hefðbundnu blúsfari og lítið að frétta. Hér fær maður líka að heyra að Jónasi eru dálítið mislagðar hendur í textagerð. Á til með að snara út snotrum, fallegum hendingum en líka hálfgerðu klastri sem hljómar eins og hrært hafi verið í textann hálftíma fyrir upptöku. Hér er til dæmis að finna undarlegar, klisjukenndar línur eins og þessar: „Að sigta sand úr sannleikskorni / Sjaldan glitrar hamingjan / Að finna fjandann í hverju horni / er ekki gullin leið.“ Annað er eftir þessu.

En síðan hækkar gæðastaðallinn aftur. Ferðalagið okkar er vel spilað, uppbyggt og samið. Glúrið. Og textinn er fallegur. „Lækurinn dansar í þínu ljósi,“ segir í upphafi og Jónas nýtir sér háu röddina viturlega. Við fáum líka að heyra í galdrakúnstum Ómars Guðjónssonar. Um miðbik lagsins brestur á með hálfgerðum hávaða, gítarinn rifnar og slagverkið tekur undir sig stökk. Vel til fundið uppbrot og spennandi mjög.

Restin af plötunni er með þessum flekkótta brag. Hefðbundnir blúsar eru sístir og þegar Jónas beitir því sem ég kalla „drungablúsröddinni“ er hann á villgötum. Búsáhaldaböl er ekki merkileg lagasmíð en Ómar og félagar skekkja það og skæla að því marki að eyrun sperrast ósjálfrátt. Kræsilegar umbúðir bjarga innihaldinu. Við taka þunglamalegir blúsar af svipuðum meiði en í Loforðasöng iðnaðarmannsins er kúrsinn réttur af; grallarasmíð og fínasta rennerí út í gegn. Þá er lokalagið gott og dálítið öðruvísi. Þyngslin í Laufin lifa eru reyndar óhemju mikil en hér kemur útsetning sterk inn, sömuleiðis upptökupælingar og hljóðfæramennska. Lagið rúllar um stund eins og ef Daniel Lanois væri að taka upp Tom Waits og ég get nú ekki farið fram á mikið meira!

Samantekið er þetta sæmilegasta verk þó köflótt sé. Gæðum misskipt á milli laga, eins og ég hef rakið, en firnagóður undirleikur út í gegn hífir þetta allt saman rækilega upp.