Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Hart deilt á ákvörðun um nýtt uppblásið íþróttahús

15.04.2022 - 12:28
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar í Hveragerði um að reisa á ný uppblásið íþróttahús hefur sætt töluverðri gagnrýni. Minnihlutinn í bæjarstjórn segir ákvörðunin hafa verið tekna á of skömmum tíma og að ekki hafi verið skoðaðir allir kostir í stöðunni. 

Uppblásna íþróttahúsið í Hveragerði, Hamarshöllin, eyðilagðist í óveðri fyrir tæpum tveimur mánuðum. Meirihluti bæjarstjórnar samþykkti í fyrradag að reist yrði að nýju sams konar íþróttahús.

Friðrik Sigurbjörnsson, forseti bæjarstjórnar, sagði í Facebook-færslu að hann hann væri stoltur af þessari ákvörðun Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn. Hún tryggði að íþróttastarf væri komið í samt horf næsta haust. 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - RÚV

Njörður Sigurðsson, situr í bæjarstjórn fyrir Okkar Hveragerði. Hann gagnýnir þessa ákvörðun meirihlutans. 

„Okkur finnst að málið hafi ekki verið kannað nægjanlega vel. Þ.e.a.s að aðrir möguleikar og aðrar gerðir af húsum hafa ekki verið kannaðar til hlítar. Þess vegna á bæjarstjórnarfundi á miðvikudaginn óskuðum við eftir að því yrði frestað að taka ákvörðun í málinu svo að hægt yrði að kanna aðra kosti betur en því hafnaði Sjálfstæðisflokkurinn,“ segir Njörður.

Er þetta ekki miklu ódýrara en að byggja bara venjulega íþróttahöll?

„Ekki endilega vegna þess að við erum með verðhugmynd frá innflytjanda að einangruðu stálgrindarhúsi, jafnstóru, á svipuðu verði og loftbóluhús. En Sjálfstæðisflokkurinn hafnaði því að skoða það nánar,“ segir Njörður.

Njörður segir að bæjarstjórn hafi áður samþykkt að skoðaðir yrðu fimm kostir en í úttekt Verkís hafi aðeins tveir þeirra verið kannaðir. Þá hafi minnihlutinn ekki fengið öll gögn fyrr en tæpum sólarhing fyrir fundinn á miðvikudag. Njörður segir mjög skiptar skoðanir bæjarbúa hafa birst á Facebook-síðu. Bent hafi verið á að uppblásið íþróttahús henti ekki fyrir allar íþróttagreinar, eins og fimleika og blak.