Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

34 drepin í hrinu ofbeldisverka í Ísrael og Palestínu

epa09889650 Relatives react next to the body of Palestinian Qusai Al Hamamrah during the funeral in the West Bank town of Husan near Bethlehem, 14 April 2022. According to the Palestinian Health Ministry, the 14-year-old Qusai Al Hamamrah was shot and killed by Israeli forces on the evening of 13 April, during an incident between Palestinians and Israeli security forces in the town of Husan, near Bethlehem.  EPA-EFE/ABED AL HASHLAMOUN
Frá útför hins 14 ára gamla Qusai Al Hamamrah, sem ísraleskir hermenn skutu til bana kvöldið fyrir skírdag. Qusai er á meðal þeirra 34 sem týnt hafa lífinu í ofbeldisöldu síðustu þriggja vikna í Ísrael og Palestínu.  Mynd: EPA-EFE - EPA
Tuttugu Palestínumenn, tólf Ísraelar og tveir Úkraínumenn hafa fallið í valinn í hrinu mannvíga og ofbeldis sem skekið hefur Ísrael og Vesturbakkann síðustu vikur. Fjórtán ára palestínskur piltur var skotinn til bana á miðvikudagskvöld.

Ísraelskir hermenn hafa drepið fimm Palestínumenn frá því á miðvikudag, í framhaldi af mannskæðri árás Palestínumanns sem skaut þrjá Ísraelsmenn til bana á bar í Tel Aviv í síðustu viku.

Palestínsk yfirvöld greindu frá því í gær að tveir ungir menn hefðu verið drepnir í aðgerðum Ísraelshers á norðanverðum Vesturbakkanum á skírdag. Á miðvikudag skutu ísraelskir hermenn þrjá Palestínumenn til bana annars staðar á Vesturbakkanum; karlmann um tvítugt, fjórtán ára pilt og mannréttindalögfræðing sem sat í bíl sínum, sem hann hafði stöðvað  til að fylgjast með aðgerðum hersins.

Naftali Bennett, forsætisráðherra Ísraels, sagði í liðinni viku að her og lögregla hefðu „fullt frelsi til athafna ... til að stöðva grimmdarverkin,“ án þess að skilgreina nánar hvað í því athafnafrelsi fælist.

Palestínumenn og ísraelskir Arabar hafa drepið tólf Ísraela og tvo Úkraínumenn í Ísrael á síðustu þremur vikum og Ísraelsmenn hafa á sama tíma drepið tuttugu Palestínumenn í aðgerðum sínum á Vesturbakkanum. Er þetta blóðugasta ofbeldishrinan af þessum toga um árabil, segir í frétt BBC.