Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Umbrotatímar í heimssögu settu svip á listsköpun

Mynd: Wikipedia / Samsett

Umbrotatímar í heimssögu settu svip á listsköpun

14.04.2022 - 12:00

Höfundar

„Það leikur ekki vafi á því að spænska veikin og heimsstyrjöldin, þetta mikla uppnám á vesturlöndum hafði mikil áhrif,“ segir Ástráður Eysteinsson. Hann fjallar um verk T.S. Eliots og James Joyce í nýjum þáttum sem nefnast Óróapúls 1922 og eru á dagskrá á Rás 1 um páskana.

Á þessu ári er öld liðin síðan tvö af helstu verkum módernismans komu út; Ulysses eða Ódysseifur eftir írska rithöfundinn James Jones og Wasteland eða Eyðilandið eftir bandarísk-breska skáldið T.S. Eliot.

Í nýrri fimm þátta útvarpsröð varpa þeir Þröstur Helgason og Ástráður Eysteinsson ljósi á þessi verk, áhrif þeirra á tímann sem þau eru sprottin úr, menningarlegt og fagurfræðilegt umhverfi þeirra og samfélagslegar og sögulegar aðstæður skömmu eftir lok fyrri heimsstyrjaldar á þriðja áratugnum.

Í fyrsta þættinum, sem var á dagskrá í dag, skírdag, sagði Ástráður að þessi tvö verk hafi fengið hlutverk tímamótaverkanna en það hafi að einhverju leyti gerst strax fyrir hundrað árum.

Ensk tunga styrktist

Ódysseifur og Eyðilandið komu út árið 1922. Viðtökur þeirra yfir lengri tíma styrktu þau í sessi og má finna fyrir því ýmsar ástæður, að sögn Ástráðs. „Við getum rætt verkin sem snilldarleg bókmenntaverk en í viðtökunum verður að líta á alla þætti, eins og meðal annars að ensk tunga styrktist gífurlega um þetta leyti og var á alheimsvettvangi fram eftir 20. öld til okkar daga, sem hjálpar þessum verkum sem eru samin á ensku,“ segir hann. „Annað sem skiptir miklu máli er styrkur breska háskólakerfisins þegar það fer að fást við nútímabókmenntir en síðan þess bandaríska enn frekar, sérstaklega á síðari hluta aldarinnar.“ Á þeim tíma segir Ástráður að mikil áhersla hafi verið lögð á þessi nýsköpunarverk og mikill túlkunarkraftur hafi verið settur í þau.

Formleg uppreisn í þessum verkum

T.S. Eliot sagði sjálfur um Joyce að Ódysseifur væri mikilvægasta verk sem skrifað hafi verið í nútímanum. Ástráður segir að það sem nútímalegt sé við verk þeirra beggja sé bæði formið og framsetningin. „Það er ákveðin formleg uppreisn í þessum verkum sem auðvitað hafði verið undirbúin af ýmsum höfundum en dregið saman á kraftmikinn hátt í báðum þessum verkum,“ segir hann.

Brú milli manns, undirvitundar og umhverfis

Þarna séu rofin ýmis raunsæismörk og kröfur um hvað getur talist eðlileg speglun veruleikans. „Það er verið að búa til nýjar brýr milli mannshugans og undirvitundarinnar og umhverfisins sem maður er að einhverju leyti búinn að missa tök á,“ segir Ástráður.

Þá birtist nýjar hliðar veruleikans sem beri með sér að maðurinn hafi ekki sömu stjórn á honum og umhverfinu og mörg hefðbundin raunsæisverk virtust fela í sér. „Þessi verk hvort á sinn hátt eru byltingarverk að þessu leyti,“ segir Ástráður sem lýsir Eyðilandinu sem róttæku ljóði og býsna mögnuðu, „sem er ekki að öllu leyti einkennandi fyrir Elliott og það er dálítið sérstakt.“

Athugasemdir Ezra Pound varðveittust

Ezra Pound var mikill örlagavaldur þessara verka en hann var ráðgjafi bæði Elliotts og Joyce. Þegar hann fékk Eyðilandið fyrst í hendurnar sagði hann að það þyrfti að skera meira úr því og gera meira við það. Þessi hvatning hafði töluverð áhrif á útkomuna.

Tillögur hans má enn lesa í ritstjórnartexta sem hefur varðveist, þar sem sjá má hvernig hann krotaði athugasemdir í verk Elliotts. „Það er hægt að sjá hvernig þetta verður enn róttækara verk en Elliott ætlaði sér og fyrir vikið verður enginn vafi á að þetta er róttækasta ljóð Elliotts. Hann átti eftir að yrkja fræg og mögnuð ljóð en ekkert þeirra er svona til jafns við Eyðilandið,“ segir Ástráður.

Spænska veikin og heimsstyrjöldin höfðu áhrif

Umhverfið hafði áhrif á sköpunina, og tíðarandinn eins og alltaf hefur verið. Þarna voru að eiga sér stað söguleg tímamót, fyrri heimsstyrjöld var nýaafstaðin, mikil plága var að ganga yfir heiminn og rússneska byltingin svo eitthvað sé nefnt. Allt átti þetta þátt í að skapa nýja veröld sem skáld og listamenn brugðust við. „Það leikur ekki vafi á því að spænska veikin og heimsstyrjöldin, þetta mikla uppnám á vesturlöndum hafði mikil áhrif,“ segir Ástráður.

Tæknivædd villimennska

Heimsstyrjöldin hafi í raun valdið siðræðnu áfalli fyrir þau lönd heims sem töldu sig hafa náð lengst í menntun, lýðræði og þeim gildum sem flaggað hafði verið. „Að þetta skyldi fara út í þessa gríðarlegu villimennsku sem heimsstyrjöldin var, þetta var einmitt tæknivædd villimennska,“ segir Ástráður.

Þetta hafi verið mikið áfall fyrir andans menn sem töldu sig lifa í hluta heimsins þar sem hugsunin, andinn og lýðræði blómstraði. „Þetta áfall er tvímælalaust stór þáttur í módernismanum og nýsköpuninni og kemur reyndar mjög glöggt fram hjá Elliott,“ segir Ástráður.

Hinir dauðu flæddu yfir brýrnar í London

Stríðsbröltið með sínum hörmungum birtst í ljóðum Elliotts. „Þarna flæða hinir dauðu yfir brýrnar í London eins og þeir séu að snúa dauðir heim úr fyrra stríði,“ segir Ástráður sem lýsir módernískum bókmenntum að hlusta sem viðbragði við fyrra stríði og umrótinu sem það olli, „en módernismi er stundum skilgreindur sem viðbragð við nútímanum. Þetta er ný stefna, fagurfræðilegt viðbragð við nýjum heimi,“ segir hann. 

„Heimurinn er byrjaður að anda aftur“

Árið 1922 hafi verið það ár sem eðlilegt ástand byrjaði víðast hvar aftur að myndast eftir stríð. „Heimurinn er byrjaður að anda aftur,“ segir Ástráður en bætir við að það eigi ekki við um veröld sem blasti við í Þýskalandi á þessum tíma, „út af samningum sem voru gerðir í Versölum. Þjóðverjar fóru mjög illa út úr því og það voru mikil mistök, margt í þeim samningum, en samt má segja að jafnvel í Berlín og París hafi menn varpað öndinni léttar,“ segir Ástraður.

Þá hafi nýtt líf kvinkað í bókmenntum, sviðs- og kvikmyndalistum sem fóru að blómstra. „Djassinn fór að berast frá Bandaríkjunum og sérstaklega í þessum tveimur borgum, París og Berlín, varð mikið frjálslynd stemning sem tengdist þessu listalífi,“ segir Ástráður.

„París var mjög sérstök borg því þó hún sé kaþólsk þá myndast þar mjög frjálslynt umhverfi, sem þýddi meðal annars að það streymdu ýmsir Bandaríkjamenn yfir Atlantshafið og settust að í París því það var miklu frjálslyndari staður. Meira að segja New York var ekki enn komin á þann stað,“ segir hann. „Borg sem kippti sér ekki upp við samkynhneigð og hvers konar hluti sem þóttu mjög róttækir á þessum árum.“

Þá blómstruðu í borginni amerískir höfundar, Gertrude Stein settist þar að, Ernest Hemingway og F. Scott Fitzgerald til dæmis og það var þá sem Ódysseifur kom út fyrir atbeina bandarískrar konu, Sylviu Beach sem átti Shakespeare and Company.

Fyrsti þáttur Óróapúls 1922 var á dagskrá í dag en annar þáttur hljómar á Rás 1 á morgun kl. 10.15.