Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Segir SFF sleppa vel með 20 milljóna króna sekt

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór - RÚV
Formaður Félags íslenskra bifreiðaeigenda segir að 20 milljóna króna sekt sem Samkeppniseftirlitið gerði Samtökum fjármálafyrirtækja að greiða vegna samráðs tryggingafélaga sé léttvæg. Brotin lýsi þó því hugarfari sem ríki á markaðinum.

Félag íslenskra bifreiðaeigenda benti í fyrrasumar á að iðgjöld bílatrygginga hefðu hækkað langt umfram verðlag, á sama tíma og kostnaður félaganna hafði farið minnkandi. Það væri fákeppni á markaði þar sem tryggingafélögin væru samstíga um að hækka iðgjöld.

SFF svarar fyrir öll félögin

Tryggingafélögin svöruðu ekki gagnrýni FÍB heldur kom það í hlut Samtaka fjármálafyrirtækja, í grein sem birtist í nafni framkvæmdastjóra samtakanna á Vísi. Sú grein átti eftir að draga dilk á eftir sér því Samkeppniseftirlitið tók greinarskrifin til rannsóknar sem lauk með sátt og Samtök fjármálafyrirtækja greiddu 20 milljóna króna sekt. 

Við rannsókn málsins óskaði Samkeppniseftirlitið eftir samskiptum SFF við tryggingafélögin. Í þeim kemur fram að sama dag og grein FÍB birtist setti eitt tryggingafélag sig í samband við SFF og kallaði eftir því að brugðist yrði við gagnrýninni. SFF sendir svo tölvupóst til allra tryggingafélaganna og tilkynnir að til standi að svara FÍB og að drög að svarinu yrðu send til allra tryggingafélaganna áður og þeim boðið að gera athugasemdir.

Léttvæg sekt og enginn sætir ábyrgð

Brot SFF fólust bæði í að tjá sig og halda uppi vörnum um verðlag tryggingafélaganna á opinberum vettvangi og undirbúningi og áðurnefndum samskiptum við félögin í aðdraganda greinarskrifanna.

Runólfur Ólafsson, formaður FÍB, segir um endurtekin brot að ræða og vísar til sambærilegra brota árið 2004. Hann segir refsinguna léttvæga og enginn sæti persónulegri ábyrgð. Réttara hefði verið að láta tryggingafélögin borga sektina. „Þannig að það er mjög léttvægt miðað við það hvernig þessi markaður er og sú velta sem er á þessum markaði, að sleppa frá svona samkeppnisbroti með 20 milljóna sektargreiðslu,“ segir Runólfur.

Runólfur segir aðferðir SFF og tryggingafélaganna einkennandi fyrir fákeppni á tryggingamarkaði þar sem fá félög bjóði upp á einsleitar vörur á sambærilegum verðum. „Þetta er svona til vitnis um það hugarfar sem er á markaðinum. Mönnum finnst eðlilegt að það sé einn aðili sem svari fyrir hönd fjögurra fyrirtækja á markaði.“