Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fjöldi netárása truflar íslenskar vefsíður

14.04.2022 - 16:08
Mynd með færslu
 Mynd: Thomas Lefebvre
Netárásir hafa truflað fjölda íslenskra vefsíðna í dag. Kerfisstjóri hjá Netheimum, sem hýsir vefsíður fjölda fyrirtækja, segir árásirnar hafa staðið yfir óvenju lengi síðustu daga.

Sverrir Már Sverrisson, kerfisstjóri, segir árásirnar vera svokallaðar DDOS-netárásir. Í slíkum árásum er tugþúsundum IP-talna beint í gegnum sömu gáttirnar, sem veldur miklu álagi á vefþjóna.

„Þetta er í rauninni eins og að senda þúsund manns í gegnum eina hurð á sama tíma“ segir Sverrir. Netheimur hýsir meðal annars vef DV sem hefur orðið að loka á alla erlenda lesendur vefsins.

„Árásirnar, svokallaðar ddos-árásir,  hafa gert það að verkum að fréttavefurinn hefur verið að detta alfarið út í nokkur skipti“ segir í frétt DV.

Árásin á hlut kerfis Netheims í dag stóð yfir í rúma klukkustund, en kerfisstjóri segir algengar þær standi í um fimmtán mínútur. Vegna álagsins var ákveðið að loka á erlenda netumferð á ákveðnum vefsíðum, líkt og gert var á DV.is. Árásirnar eru enn til rannsóknar.

Einnig urðu truflanir á rúv.is í dag vegna óvenju mikils álags. Þær truflanir voru þó minniháttar og virðast komnar í lag.