Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Bretar ætla að senda hælisleitendur til Rúanda

14.04.2022 - 02:44
A police officer looks over a group of people thought to be migrants, sitting in the shade after being escorted from the beach by Border Force officers in Dungeness, southern England, Tuesday July 20, 2021.  A group or people are being looked after by officials following a small boat incident in the English Channel.  (Gareth Fuller/PA via AP)
Breskur lögreglumaður stendur hjá hópi flóttafólks í Dungeness á Suður-Englandi í júlí 2021. Fólkið komst við illan leik til Englandsstranda eftir siglingu frá Frakklandi. Mynd: AP - PA
Bresk stjórnvöld hyggjast flytja hælisleitendur, sem koma til landsins á bátskænum eftir hættuför yfir Ermarsundið, til Afríkuríkisins Rúanda. Þar verður þeim komið fyrir í flóttamannabúðum á meðan unnið er úr umsóknum þeirra um hæli í Bretlandi. Þetta kemur fram í áætlun bresku ríkisstjórnarinnar, sem búist er við að innanríkisráðherrann Priti Patel leggi fram í dag, fimmtudag, samkvæmt bresku fréttastofunni PA Media.

Patel fer í opinbera heimsókn til Rúanda á þriðjudag og reiknað er með að samningur ríkjanna um þetta verði undirritaður við það tækifæri. Samkvæmt heimildum PA Media greiða Bretar Rúanda 120 milljónir sterlingspunda, jafnvirði ríflega 20 milljarða króna, fyrir rekstur búðanna á umsömdu reynslutímabili.

Um 28.000 flótta- og förufólks sigldu yfir Ermarsundið frá Frakklandi til Bretlands á síðasta ári, fleiri en nokkru sinni fyrr, á mistraustum fleyjum. Óttast er að tugir og jafnvel hundruð hafi drukknað á þessari leið í fyrra.