Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Vararíkisstjóri New York ákærður vegna spillingar

13.04.2022 - 04:22
FILE - New York State Senator John Liu, center, takes a photo with State Senator Brian Benjamin at the "Voting is Justice Rally," June 20, 2021, in New York. Benjamin resigned, Tuesday, April 12, 2022, in the wake of his arrest in a federal corruption investigation. (AP Photo/Brittainy Newman, File)
John Liu, fulltrúi í öldungadeild New York-þings, tekur mynd af sér og félaga sínum Brian Benjamin á kosningafundi í júní 2021. Litlu síðar var Benjamin skipaður vararíkisstjóri New York ríkis, en í nóvember 2022 var hann handtekinn, grunaður um spillingu, og svo ákærður í apríl 2022. Mynd: AP
Brian Benjamin, vararíkisstjóri New York-ríkis, sagði af sér embætti á þriðjudag eftir að honum var birt ákæra vegna mútuþægni. Benjamin er gefið að sök að leggja á ráðin um að afla sér ólögmætra framlaga í kosningasjóð sinn á síðasta ári frá ónefndum fjárfesti í Harlem í New York borg, gegn fyrirheiti um framlög New York-ríkis til frjálsra félagasamtaka sem fjárfestirinn ræður fyrir.

Benjamin var fulltrúi Demókrata í öldungadeild ríkisþings New York og í framboði til embættis fjármálastjóra eða -ráðherra ríkisins þegar þetta var, en náði ekki kjöri sem slíkur. Hann var handtekinn í nóvember síðastliðnum.

Fjársvik, lygar og blekkingar

Í ákæruskjali saksóknara segir að með framferði sínu hafi Benjamin misnotað vald sitt sem öldungadeildarþingmaður í New York-ríki er hann lagði á ráðin um mútugreiðslur þar sem hann hugðist „nota opinbert fjármagn í eigin þágu“ með ólöglegum hætti. Jafnframt hefði hann gerst sekur um að reyna að hylma yfir glæpi sína með lygum og blekkingum og skila inn fölsuðum gögnum til yfirvalda, þegar verið var að kanna bakgrunn hans áður en hann var skipaður vararíkisstjóri.

Ríkisstjórinn, Kathy Hochul, tók við ríkisstjóraembættinu í fyrra þegar forveri hennar, Andrew Cuomo, neyddist til að segja af sér vegna fjölda ásakana um kynferðisáreiti og kynferðisbrot. Hún er ekki talin hafa vitað nokkuð um glæpsamlegt athæfi Benjamins. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV