Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Uppsagnarbréfið sem barst starfsfólki Eflingar í nótt

Mynd með færslu
 Mynd: Andri Yrkill Valsson - RÚV
Öllu starfsfólki á skrifstofu Eflingar barst uppsagnarbréf í tölvupósti klukkan tvö í nótt. Fréttastofu hefur borist afrit af einu bréfanna.

Í bréfinu segir að ráðningarsamningi hafi verið sagt upp og ástæðurnar séu skipulags- og rekstrarbreytingar sem nái til allra stöðugilda hjá stéttarfélaginu Eflingu.

Samið um styttri uppsagnarfrest

Þá segir í uppsagnarbréfinu að uppsagnarfrestur sé í samræmi við ráðningarsamning hvers og eins og þess óskað að vinnuskylda sé uppfyllt á uppsagnartíma. Trúnaðarmenn hafi hins vegar samið um að þeir sem þess óski verði leystir undan vinnuskyldu síðasta mánuð uppsagnarfrests. Þá verði öllum, óháð starfsaldri, tryggður þriggja mánaðar uppsagnarfrestur.

Í yfirlýsingu frá stjórn Eflingar sem gefin var út í morgun, segir að bréfið hafi verið sent í kjölfar þess að samkomulag náðist við trúnaðarmenn auk Vinnumálstofnunar.

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsent - RÚV
Uppsagnarbréfið sem starfsfólki barst í nótt.

Sólveig Anna Jónsdóttir sagði í fréttum í gær að uppsagnirnar væru óhjákvæmilegar og liður í þeim breytingum sem hún og Baráttulistinn ætli að gera til að stuðla að eðlilegu bili milli hæstu og lægstu launa á skrifstofunni og tryggja jafnrétti og jafnsæi í launakjörum starfsfólks.

Bæði forseti ASÍ og formaður BHM gagnrýndu hópuppsögnina í gær. Friðrik Jónsson, formaður BHM, sagði að hún vekti óhug og greinilegt að stjórn Eflingar vildi losa sig við óæskilegt starfsfólk.

Skýtur á stjórnarmenn fyrir að leka upplýsingum til fjölmiðla

Í yfirlýsingu sem Sólveig Anna sendi fjölmiðlum í morgun segir: „Ég lýsi ánægju með að samráð við trúnaðarmenn hafi skilað sér í samkomulagi. Staðið hefur verið rétt og faglega að ferlinu. Það er hins vegar mjög leitt að minnihluti stjórnar hafi ekki virt trúnað og kosið að leka upplýsingum í fjölmiðla meðan á samráði stóð“.

„Vanstillt umræða hefur svo farið úr böndunum síðustu sólarhringa þar sem ýmsir hafa sett sig á háan hest án þess að vita nokkuð um málið. Er það engum til sóma,“ sagði Sólveig Anna.

Sólveig Anna Jónsdóttir
 Mynd: Silfrið - Skjáskot
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.