Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Ósannsögli varð ráðherrum í Noregi að falli

13.04.2022 - 11:45
Mynd: EPA / EPA
Tveir ráðherrar hafa neyðst til að segja af sér á fyrsta hálfa árinu á valdatíma ríkisstjórnar Jonasar Gahr Störe í Noregi. Þessir ráðherrar voru þó ekki umdeildir og nutu trausts þingsins alveg þangað til fréttir fóru að berast af gömlum syndum þeirra. 

Svo sem gefur að skilja er það áfall fyrir Jonas Gahr Störe og ríkisstjórn hans að missa tvo ráðherra fyrir borð og ekki liðið nema hálft ár frá því stjórnin var mynduð. Norski forsætisráðherrann er hins vegar fastur á sínu og lætur ráðherra fara ef þeir bregðast trausti. Gísli Kristjánsson í Noregir rekur hvað varð ráðherrunum að falli. 

Gamlar, ósagðar syndir hverfa ekki

Í báðum tilvikum er talað um að gamlar syndir hafi orðið ráðherrunum tveimur að falli. Fyrir myndun stjórnarinnar var þeirri hefð fylgt að kanna bakgrunn hvers ráðherraefnis. Væntanlegir ráðherrar voru spurðir hvort þeim hefði orðið eitthvað á á ferli sínum sem þætti ámælisvert. Hjá báðum þessum ráðherrum var svarið nei. 

Sagði ekki satt um búsetu

Þetta voru ráðherrar sem áttu að styrkja stjórn sína vegna stöðu sinnar. Hadja Tadsjik var varaformaður Verkamannaflokksins og atvinnuráðherra og þótti bæði skelegg og dugleg - en hún sagði ekki frá gamalli synd. Hún hafði eins og reyndar fleiri fengið skattfrítt leiguíbúð í Ósló vegna þess að hún átti heima í Stafangri og hafði útgjöld vegna heimilishalds þar, en þetta var ósatt.

Hún var bara skráð til heimilis þar. Þetta var synd sem fleirum hefur orðið að falli. Hún reyndi í lengstu lög að afsaka þess yfirsjón sína og afsakanirnar gerðu bara illt verra. Hún sagði ósatt og varð að hætta.

Ástarsamband við unga stúlku

Í hinu tilvikinu er um reyndan ráðherra að ræða, Odd Roger Enoksen, varnarmálaráðherra. Hann hafði tvívegis áður setið í ríkisstjórn fyrir flokk sinn, Miðflokkinn, sem er flokkur bænda. Gott þótti að kalla svo reyndan mann að ríkisstjórnarborðinu og hann var aldursforseti ríkisstjórnarinnar. Hann játaði engar syndir aðspurður um líf sitt fram að þessu - en hann sagði ósatt. Ráðherrann hafði ekki fetað fram hinn þrönga veg dyggðanna í samskiptum við hitt kynið. Þar á meðal hafði hann átt í ástarsambandi við 18 ára skólastúlku og fleiri sögur voru komnar í umferð. Þeir sem þekkja Enoksen segja nú að allt þetta hafi allir vitað en hann lagði ekki spilin á borðið þegar hann var spurður.

Er ekki nóg að spyrja um ferilinn, þarf að rannsaka? 

Núna gagnrýna menn rannsóknina á ferli einstakra ráðherraefna. Verðandi ráðherrar eru einfaldlega spurðir hvort þeir hafi óhreint mjöl í pokahorninu en engin sjálfstæð rannsókn gerð. Þetta byggir á trausti og ráðherra verður að víkja ef hann hefur brugðist trausti. Hér gilda að sjálfsögðu alveg sömu reglur og á Íslandi. Ráðherrar bera ábyrgð gagnvart þinginu og ef ráðherra hefur glatað stuðningi meirihluta þings hlýtur hann að víkja. Það er þingræðisreglan. Hættan á að ráðherra missi stól sinn er enn meiri ef um minnihlutastjórn er að ræða. Þá er líf stjórnarinnar háð stuðningi flokka utan stjórnar og ekki hægt að verja ráðherra falli nema biðja þeim griða sérstaklega. 

Vikið áður borin er upp tillaga um vantraust

Jonas Gahr Störe forsætisráðherra hefur valið hinn kostinn að láta synduga ráðherra víkja áður en vantraust kemur fram, en allt veltur á hvort meirihluti þingmanna vill verja ráðherrana falli. Á Íslandi sitja jafnan meirihlutastjórnir og þá er auðveldara að halda stuðningi meirihlutans á þingi. Sama er hér þegar meirihlutastjórnir sitja  – en það hefur alls ekki heppnast alltaf að bjarga öllum ráðherrum frá falli, hvorki á Íslandi né í Noregi. 

Einkamál felldu ráðherrana ekki stjórnmál

Deilur um stjórnmál urðu ekki þessum tveimur norsku ráðherrum að falli núna. Ekki deilur um stefnu þeirra, ekki deilur um verk þeirra eða framkvæmd einstakra mála. Varnarmálaráðherrann naut almenns trausts þingmanna í sínum málaflokki, en báðir ráðherrarnir héldu gömlum syndum leyndum og einkamál þeirra urðu þeim að falli. Næst liggur svo fyrir að finna nýjan varnarmálaráðherra. Það er mikilvægt embætti á þessum óvissutímum og nú mikilvægt að nýr ráðherra játi allar mögulegar gamlar syndir áður en hann fær stólinn.