Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hjarðónæmi náð en óvissa um þróun faraldursins

13.04.2022 - 15:00
Mynd með færslu
 Mynd: Ljósmynd/Almannavarnir
Yfirstandandi bylgja kórónuveirufaraldursins er enn á niðurleið þótt engar opinberar sóttvarnir hafi verið í gildi síðan í lok febrúar. Sóttvarnalæknir segir að líklegasta ástæðan fyrir því að smit séu nú færri en áður sé að hjarðónæmi hafi náðst í samfélaginu. Það hafi náðst vegna útbreiddra smita og góðrar þátttöku í bólusetningum. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni. Í henni segir að 100-200 manns greinist með COVID-19 á dag en það skýrist af einhverju leyti af því að færri sýni eru tekin nú en áður. 

Í tilkynningunni kemur fram að þótt staða faraldursins sé góð þessa stundina sé nokkur óvissa um þróun hans á næstu mánuðum. Tengist óvissan helst endursmitum og nýjum afbrigðum kórónuveirunnar.  

„Í dag er talið að um 50% íbúa heimsins hafi smitast af völdum COVID-19. Þannig mun faraldurinn verða áfram í gangi í heiminum í einhvern tíma sem gefur nýjum afbrigðum tækifæri til að myndast og dreifa sér. Hvort smithæfni nýrra afbrigða verður meiri en af völdum fyrri afbrigða, hvort alvarleiki veikindanna verður meiri eða hvort fyrri sýkingar eða bóluefni muni veita einhverja vernd, er ógerlegt að spá fyrir um.“

Alls hafa um 184 þúsund manns greinst með COVID-19 hér á landi frá upphafi faraldursins. Talið er líklegt að fleiri hafi smitast án þess að hafa greinst með sjúkdóminn. Kannanir sóttvarnalæknis og Íslenskrar erfðagreiningar benda til  þess að allt að tvöfalt fleiri hafi smitast en greinst.  

peturm's picture
Pétur Magnússon
Fréttastofa RÚV