Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Brýnt að fá ferju sem uppfyllir nútímaöryggiskröfur

Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Bæjarstjórinn í Stykkishólmi segir afar brýnt að fá ferju yfir Breiðafjörð sem uppfylli nútíma öryggiskröfur, ekki síst skip búið tveimur vélum. Kallað hafi verið eftir því um töluverða hríð.

Samgöngustofa gerði aukaskoðun á Breiðafjarðarferjunni Baldri eftir að skoðun Einars Jóhannesar Einarssonar, vélfræðings og fyrrverandi skipaeftirlitsmanns hjá Samgöngustofu fyrir fréttaskýringaþáttinn Kveik leiddi í ljós að mörgu var verulega ábótavant við ástand skipsins.

Einar sagði ferjuna í raun ekki örugga til farþegaflutninga. Sæferðir sem eru eigandi skipsins lét gera við margt af því sem Einar Jóhannes gerði alvarlegar athugasemdir við og því er niðurstaða Samgöngustofu að ekki þurfi að afturkalla haffæri Baldurs.

Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Samgöngustofu, segir að skip á borð við Baldur yrði ekki smíðað í dag. 

Baldur var smíðaður í Noregi árið 1979. Jakob Björgvin Jakobsson bæjarstjóri í Stykkishólmi segir afar brýnt að fá ferju smíðaða á þessari öld sem uppfylli nútíma öryggiskröfur. 

„Við erum að horfa til aðbúnaðar um borð, aðgengi fyrir fatlaða og annað slíkt. Síðan aukin þörf atvinnulífsins á Vestfjörðum í fiskeldinu og flutninga þaðan yfir fjörðinn,“ segir Jakob. 

Áhöfn skipsins og farþegar sátu föst í Baldri eftir að hann varð vélarvana úti á Breiðafirði fyrir rúmu ári. Draga þurfti skipið í land. Ein aflvél er í skipinu en skipið bilaði seinast í höfninni í Stykkishólmi í febrúar. 

Jakob segir ítrekað hafi verið bent á mikilvægi nýrrar ferju fyrir ferðaþjónustuna og varðandi búsetuskilyrði í Flatey. Hann segir áríðandi að ferjan verði búin tveimur aflvélum.

„Ef það uppfyllir allar öryggiskröfur yrði gerð krafa um tvær vélar. Það þyrfti að fara í hafnarframkvæmdir bæði í Stykkishólmi og Brjánslæk og jafnvel einnig í Flatey.“