Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Sólveig Anna segir hópuppsögn óhjákvæmilega

Sólveig Anna Jónsdóttir, fyrrverandi formaður Eflingar, býður sig fram að nýju.
 Mynd: Þór Ægisson
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir það hafa verið óhjákvæmilegt að öllu starfsfólki stéttarfélagsins yrði sagt upp. Hún segir öllum ráðningarsamningum verði sagt upp, en starfsfólk verði hvatt til þess að sækja um störf að nýju. Í viðtali við fréttastofu sagðist Sólveig Anna ekki telja að ákvörðunin hefði nein áhrif á stuðning sem hún njóti meðal félagsfólks.

Hún segir baráttulistann taka ákvörðun um hópuppsögn með „skýrum málefnanlegum grunni“. 

„Eru þær breytingar hugsaðar til að innleiða samræmi, jafnrétti og gagnsæi í launakjörum starfsfólks, innleiða eðlilegt bil milli hæstu og lægstu launa á skrifstofunum, og gera aðrar löngu tímabærar og nauðsynlegar breytingar á skipulagi“ segir í yfirlýsingunni.

Sólveig sagði í viðtali við fréttastofu að uppsagnirnar væru bæði skiljanlegar og eðlilegar.

Vinnur að heiman og lögmenn sjá um samskipti við starfsfólk

Sólveig Anna sagði í samtali við fréttastofu hún hefði ekki mætt til starfa á skrifstofu félagsins. Hún hafi látið lögmenn um að vera í samskiptum við starfsfólk skrifstofunnar. Hún segir engan hafa kallað eftir hennar viðveru á skrifstofunni.

Hún segist ekki hafa rætt við starfsfólk um uppsagnirnar. „Við munum gæta að réttindum starfsfólksins að öllu leyti“ sagði Sólveig Anna og ítrekaði að þau myndu fara að lögum í einu og öllu.

Segjast standa við gefin loforð

Í yfirlýsingunni segir að baráttulistinn, með Sólveigu Önnu í fararbroddi, hafi í raun gefið kosningaloforð um að starfsfólki skrifstofunnar yrði sagt upp. Þau segja ferlið vera hópuppsagnarferlið í algeru samræmi við lög og reglur.

„Yfir stendur lögbundið samráð við fulltrúa starfsfólks sem lögum samkvæmt ber að fara fram í trúnaði. Formaður Eflingar harmar að aðilar hafi rofið trúnað, lekið gögnum í fjölmiðla og tjáð sig þar með óvarlegum hætti áður en því samráðsferli lauk“ segir í yfirlýsingunni.

Mótmælir gagnrýni forseta ASÍ

Sólveig Anna mótmælir yfirlýsingu Drífu Snædal vegna málsins. Hún segir Drífu fara með „órökstuddar yfirlýsingar um lýðræðislegar ákvarðanir stjórnar Eflingar varðandi innri skipulagsmál á skrifstofum félagsins.“

Sólveig Anna gagnrýnir forseta ASÍ harðlega og segir hana ekki hafa sótt sér upplýsingar né skýringar frá stjórn eða formanni Eflingar.

„Það eru sorgleg nýmæli að forseti Alþýðusambandins ráðist á verka- og láglaunafólk í stjórn eins af aðildarfélögum ASÍ með þessum hætti“ segir formaður Eflingar.

Fréttin hefur verið uppfærð.