Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Oddvitar gömlu sveitarfélaganna efstir á nýjum listum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Oddvitar Svalbarðshrepps og Langanesbyggðar skipa fyrsta sæti á þeim tveimur framboðslistum sem kosið verður um í sameinuðu sveitarfélagi í komandi sveitarstjórnarkosningum. Hafin er rafræn söfnun á hugmyndum að nafni á nýtt sveitarfélag.

Íbúar Svalbarðshrepps og Langanesbyggðar samþykktu sameiningu sveitarfélaganna í kosningum 26. mars. Kosið verður í sveitarstjórn í nýju sveitarfélagi 14. maí.

Tilkynnt var um tvo framboðslista, áður en frestur til þess rann út 8. apríl. Þetta eru H-listi „Betri byggð“ og L-listi „Framtíðarlistinn.“ 

Athygli vekur að oddvitar listanna leiddu báðir sveitarstjórnir „gömlu“ sveitarfélaganna. Sigurður Þór Guðmundsson, oddviti Svalbarðshrepps, skipar efsta sæti H-lista og Þorsteinn Ægir Egilsson, oddviti Langanesbyggðar, leiðir L-lista.

Í dag var auglýst eftir tillögum, frá íbúum og öðrum, að nafni á nýja sveitarfélagið. Um er að ræða rafræna hugmyndasöfnun þar sem allir geta tekið þátt. Henni lýkur fimmtudaginn 5. maí.