Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Erfiðar illdeilur og fordæmalausar uppsagnir

12.04.2022 - 18:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lektor í sagnfræði segir engin fordæmi fyrir því að öllu starfsfólki íslensks stéttarfélags sé sagt upp á einu bretti. Illdeilurnar innan verkalýðshreyfingarinnar séu óvenjumiklar í sögulegu samhengi.

Sumarliði Ísleifsson sagnfræðingur, sem hefur rannsakað sögu verkalýðshreyfingarinnar, segir ákvörðun meirihluta stjórnar Eflingar um að segja öllu starfsfólki stéttarfélagsins upp fordæmalausa á Íslandi.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir það hafa verið óhjákvæmilegt að segja starfsfólki upp til að innleiða samræmi, jafnrétti og gagnsæi í launakjörum, innleiða eðlilegt bil milli hæstu og lægstu launa og gera aðrar nauðsynlegar breytingar á skipulagi.

„Þetta er algjörlega fordæmalaust. Það eru náttúrulega þekkt eldri dæmi hjá miklu fámennari félögum fyrir löngu síðan. Þetta voru pólitísk félög og starfsmönnum var þá sagt upp. Það var bara spurning um einn eða tvo en ekki marga tugi,“ segir Sumarliði. 

Harðar skeytasendingar hafa gengið á milli Sólveigar Önnu og Drífu Snædal, forseta ASÍ, í dag. Sumarliði segir sundrungina geta gert komandi kjaraviðræður snúnar, enda hafi styrkur verkalýðshreyfingarinnar verið fólginn í samstöðu.

Þá geymi sagan fáar vísbendingar um framhaldið, enda sé framgangur mála fordæmalaus.

„Maður man ekki eftir svona hörðum deilum, ég veit ekki síðan hvenær. Það var auðvitað deilt hart hér kannski á sjötta áratugnum, sérstaklega í kalda stríðinu. Það var pólitískur grunntónn í því. Jú, líka á fjórða áratugnum þegar Kommúnistaflokkurinn er að vinna sér sess innan hreyfingarinnar. En, þú veist, þetta er óþekkt í hreyfingunni á síðustu áratugum,“ segir Sumarliði.