Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Britney Spears gengur með sitt þriðja barn

epa04906141 Britney Spears arrives on the red carpet for the 32nd MTV Video Music Awards at the Microsoft Theater in Los Angeles, California, USA, 30 August 2015.  EPA/PAUL BUCK
 Mynd: EPA
Bandaríska söngkonan Britney Spears greindi frá því í gær að hún gengi með sitt þriðja barn. Fimm mánuðir eru síðan dómari kvað upp þann úrskurð að Spears fengi fullt sjálfræði eftir að hafa verið undir stjórn lögráðamanna í þrettán ár.

Söngkonan sem er fertug greindi frá þunguninni á Instagram en hún hefur sagt að lögræðissviptingin hafi orðið til þess að hún gat ekki látið fjarlægja lykkjuna sem kemur í veg fyrir þungun.

Hún segist þó hafa viljað eignast fleiri börn. Orð Spears á Instagram voru þeirrar náttúru að mikil umræða hófst á samfélagsmiðlum um hvort hún bæri tvíbura undir belti. 

 

Unnusti og væntanlegur barnsfaðir Britney Spears er 28 ára og heitir Sam Asghari. Fyrir á söngkonan tvö börn með fyrrverandi eiginmanni sínum, rapparanum og dansaranum Kevin Federline.

Nýverið tók Spears að vísa til Asgharis sem eiginmanns síns sem varð til þess að aðdáendur hennar töldu víst að þau væru gengin í hjónaband. Þau tilkynntu um trúlofun sína á síðasta ári en hafa verið par í um það bil sex ár. 

Jamie Spears, faðir Britneyjar var lögráðamaður hennar frá árinu 2008 en andlega vandamál hennar og fíkniefnanotkun leiddi til úrskurðar dómara þess efnis.

Auk þess að fara með fjármál og samningagerð fyrir dóttur sína um þrettán ára skeið sá hann einnig um heilbrigðismál hennar og aðra þætti í einkalífi hennar.

Hún reis formlega upp gegn valdi Jamie Spears á síðasta ári og fljótlega óskaði hann eftir að láta af forsjánni. Laust fyrir miðjan nóvember kvað dómari í Los Angeles upp þann úrskurð að Britney Spears skyldi fá fullt sjálfræði.