Duda sagði ekki hvert hann myndi leita með málið né að hverjum kröfum Pólverja yrði beint. Hann sagði í ræðu að þjóðarmorð fyrndust ekki og því ætlaði hann innan skamms að leggja málið fyrir alþjóðlegan dómstól.
„Þegar stríðsglæpir og glæpir gegn mannkyni gleymast án refsingar ýtir það undir þá trú gerendanna og eftirmanna þeirra að þeir sleppi áfram við refsingu,“ sagði Duda.
„Það hugarfar er augljóst í harðneskjulegri aðför Rússa að Úkraínu.“ Forsetinn hét Úkraínumönnum öllum þeim stuðningi sem þyrfti við að leita réttar síns gegn Rússum.
„Við gerum allt sem við getum til að tryggja að fórnarlömbin í Úkraínu þurfi ekki að bíða í 80 ár eftir því að fá réttlætinu framgengt,“ sagði Duda. Sovétríkin réðust inn í austurhluta Póllands í september 1939 samkvæmt samkomulagi við Þýskaland.
Þá voru 22 þúsund stríðsfangar, lögreglumenn, hermenn og menntamenn auk annarra myrtir í Katyn-skógi og Medonia í Rússlandi og í Kharkiv austanvert í Úkraínu.
Það var ekki fyrr en árið 1990 að Mikhail Gorbachev þáverandi leiðtogi Sovétríkjanna viðurkenndi sök í málinu. Þangað til var staðhæft að þýskir nasistar hefðu staðið að fjöldamorðunum.
Duda segir Pólverja sjá eftir því að ekkert hafi verið gert til að leita réttlætis snemma á tíunda áratugnum þegar Boris Jeltsín forseti Rússlands sagði ábyrgðina liggja hjá stjórnvöldum að skipun Stalíns.
Pólverjar minntust þess í dag að 82 ár eru liðin frá fjöldamorðunum. Eins var þess minnst að tólf ár eru liðin frá flugslysinu í Smolensk þar sem þáverandi forseti landsins fórst ásamt 95 öðrum.