Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Biden og Modi ræða heimsmálin í dag

epa07578468 Bhartya Janta party (BJP) leader Indian Prime Minister Narendra Modi addresses a press conference in New Delhi, India, 17 May 2019. Indian Prime Minister Narendra Modi and BJP President Amit Shah addressed the press conference at their party headquarters in New Delhi.  EPA-EFE/RAJAT GUPTA
Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands. Mynd: EPA-EFE - EPA
Joe Biden Bandaríkjaforseti og Narendra Modi forsætisráðherra Indlands ætla að hittast á fjarfundi í dag að því er fram kemur í tilkynningu frá Hvíta húsinu. Innrásin í Úkraínu verður ofarlega á baugi í samtali þeirra.

Leiðtogarnir tveir hafa margt að ræða, þar á meðal stöðu kórónuveirufaraldursins og efnahagsmál heimsins.

Auk þess segir í tilkynningunni að Biden muni vilja halda áfram samtali um afleiðingar innrásar og hernaðar Rússa á hendur Úkraínumönnum. Þá muni þeir Modi ræða hvernig milda skuli áhrif innrásarinnar á matvælaframleiðslu og hrávörumarkað heimsins.

Talið er að Indverjar hafi keypt sex milljónir tunna af rússneskri olíu frá því Vesturlönd hófu refsiaðgerðir og þvinganir gegn Rússum. Þeir hafa í óða önn leitað nýrra markaða fyrir olíu en Indverjar segja olíuviðskipti sín við Rússa aðeins vera dropa í risavaxna fötu.

Daleep Singh, varaþjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjastjórnar heimsótti Indland nýverið og sagði í kjölfarið að ekki væri ástæða til afskipta af olíuviðskiptum þarlendra við Rússa að svo stöddu. Hins vegar gæti þurft að bregðast við aukist verulega við kaup Indverja á rússneskri olíu.