Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Vitni segja fangara sína hafa gert allt til að dyljast

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Ekkert vitni í réttarhöldum yfir hryðjuverkamanninum El Shafee Elsheikh hefur verið beðið um að bera kennsl á hann. Ástæðan er sú að meðan fólkið var í haldi hans og þriggja félaga hans gerðu þeir allt til að fela ásýnd sína.

Réttað er yfir Elsheikh í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna. Hann var meðlimur mannræningja- og aftökuhóps á vegum ISIS, sem fengið hefur viðurnefnið „Bítlarnir“.

Hann er sakaður um að hafa myrt fjóra og haldið á þriðja tug í gíslingu. Þau myrtu voru blaðamennirnir James Foley og Steven Sotloff og hjálparstarfsfólkið Peter Kassig og Kayla Mueller. 

Ástæða viðurnefnisins er sú að fjórmenningarnir töluðu með sterkum enskum hreim. Átta manns sem fjórmenningar höfðu í haldi hafa stigið í vitnastúkuna.

Bannað að horfa í andlit gíslatökumannanna

Allir segja sömu söguna að yfirleitt hafi verið bundið fyrir augu þeirra auk þess sem fangarar þeirra báru lambhúshettur þannig að aðeins sást í augun. „Þeir gerðu allt til að verja sig,“ segir Edouard Elias, franskur ljósmyndari sem var gísl ISIS frá júní 2013 til apríl 2014.

Hann segir aðra fangaverði hafa látið eitthvað uppi en fjórmenninga ekki. Mannræningjarnir skipuðu gíslum sínum að krjúpa og snúa andliti að vegg í hvert skipti sem þeir komu inn í fangaklefana.

Föngunum var harðbannað að horfa framan í gíslatökumennina að sögn Federico Motka, ítalsks hjálparstarfsmanns sem var í haldi um fjórtán mánaða skeið.

Franski blaðamaðurinn Nicolas Henin segir líklegt að fjórmenningarnir hafi talið sig óhulta frá ákæru hyldu þeir andlit sitt. „Það var kannski kjánaleg hugmynd,“ segir Henin.

Gíslar hópsins voru frá að minnsta kosti fimmtán ríkjum, þeirra á meðal Bandaríkjunum, Danmörku, Noregi og Frakklandi. Fyrir kom að ríkisstjórnir greiddu lausnargjald til að fá fólkið látið laust.

Saksóknarar bjartsýnir á sakfellingu

Kúrdískar hersveitir í Sýrlandi handsömuðu Elsheikh og Alexanda Amon Kotey í janúar 2018 en forsprakki hópsins, Mohammed Emwazi kallaður „Jihadi John“, féll í loftárás árið 2015.  Fjórði maðurinn er í haldi í Tyrklandi. 

Ekki er búist við að Elsheikh beri vitni en hann hefur lýst yfir sakleysi sínu. Saksóknarar í málinu kveðast þess fullvissir að þeim takist að sanna fyrir kviðdómi að hann sé einn fjórmenninganna sem kallaðir hafa verið „Bítlarnir“.