Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Þingkosningar í Ástralíu boðaðar 21. maí

epa08308341 Australian Prime Minister Scott Morrison speaks to the media during a press conference regarding coronavirus and COVID-19 at Parliament House in Canberra, Australia, 20 March 2020. Australia has recorded at least seven coronavirus and COVID-19 related deaths.  EPA-EFE/LUKAS COCH  AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu. Mynd: EPA-EFE - AAP
Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, hefur boðað til sambandsþingskosninga 21. maí næstkomandi. Hann hefur setið að völdum í þrjú ár sem einkennst hafa af glímunni við kórónuveirufaraldurinn, mannskæð flóð og gróðurelda.

Kjörtímabil þingmanna á sambandsþingi Ástralíu er þrjú ár. Atvinnuleysi hefur ekki verið minna í þrettán ár og efnahagurinn er í jafnvægi. Þrátt fyrir það sýna skoðanakannanir að íhaldsstjórn Morrisons hefur minna fylgi en Verkamannaflokkurinn.

Fylgi hans er um 54 af hundraði en Frjálslyndir og Þjóðarflokkurinn hafa samtals 46%. Flokkarnir hafa ráðið ríkjum í Ástralíu undanfarin níu ár eða þrjú kjörtímabil.

Kannanir leiða í ljós að nokkur hluti 17 milljóna kjósenda vantreystir Morrison en hann hefur lýst sjálfum sér sem venjulegum, trúuðum, áströlskum fjölskyldumanni.

Margir stjórnmálamenn, þeirra á meðal tveir úr Frjálslynda flokki forsætisráðherrans, lýsa honum sem yfirgangsseggi með einræðistilburði.

Þrátt fyrir það sýna kannanir svipaðan áhuga á að hann haldi áfram sem forsætisráðherra og að Anthony Albanes formaður Verkamannaflokksins taki við. 

Morrison sagði á blaðamannafundi í Canberra að kosningarnar snerust fyrst og fremst um Ástrali sjálfa og framtíð landsins. Hann kvaðst gera sér grein fyrir þeim miklu áskorunum sem landsmenn hefðu mætt undanfarin ár og að næstu ár geti orðið erfið.

Kjósendur virðast helst hafa áhyggjur af framfærslukostnaði heimilanna en ríkisstjórnin hefur heitið lækkun á eldsneytisgjöldum og skattalækkunum sem gagnast um helmingi landsmanna.

Þrátt fyrir gagnrýni úr ýmsum áttum vilja fáir útiloka að Morrison hafi sigur. Honum tókst það í kosningunum 2019 þrátt fyrir að kannanir sýndu löngum aðra niðurstöðu.