
Fyrsti hópur úkraínskra flóttamanna til Færeyja í dag
Tekið verður á móti fólkinu á alþjóðaflugvellinum í Vogum og ekið með það til Þórshafnar þar sem það dvelur í skólanum meðan unnið verður úr dvalarleyfisumsóknum þess. Það er talið geta tekið eina til tvær vikur.
„Þau sem hafa fengið boð um gistingu hjá fjölskyldum hér í Færeyjum þurfa sennilega ekki að dvelja lengi í skólanum heldur fara beint þangað sem tekið verður á móti þeim,“ segir Bárður Atlason Ísheim sem fer fyrir aðgerðahópi færeyska Rauða krossins í samtali við KVF.
Í skólanum verður auk gistingar boðið upp á margskonar nám fyrir börn og fullorðna auk vinnustofu og fleiri tómstunda. Einnig er þar íþróttasalur. Bárður segir að dvölin í skólanum sé hugsuð sem tímabundin lausn ásamt öðrum úrræðum innflytjendastofu og Rauða krossins sem í sameiningu skipuleggja móttöku flóttafólksins.
Lýðháskólinn er heimavistarskóli að norrænni fyrirmynd þar sem áhersla er lögð á skapandi námsleiðir. Hann stendur á grænu svæði í miðbæ Þórshafnar, þar eru 34 herbergi ásamt stóru eldhúsi og borðstofu.