Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fyrri umferð forsetakosninga í Frakklandi hafin

epa09565601 Pedestrians wear protective face masks as they look at a map near the Eiffel Tower in Paris, France, 05 November 2021. The World Health Organization (WHO) has expressed concern over the rising number of COVID-19 coronavirus infections across many parts of Europe as in Germany and the Netherlands. Mediterranean countries including France, Spain and Italy have not yet seen a spike in infection rates.  EPA-EFE/IAN LANGSDON
 Mynd: EPA-EFE
Franskir kjósendur ganga að kjörborðinu í dag í fyrri umferð forsetakosninga þar í landi. Búist er við að baráttan standi milli Emmanuels Macron forseta og Marine Le Pen sem stendur lengst til hægri í frönskum stjórnmálum.

Tólf eru í framboði, þar af sjö sem einnig buðu sig fram fyrir fimm árum. Macron og Le Pen áttust einnig við í síðari umferð kosninganna þá, þar sem Macron hlaut 66% atkvæða.

Greinendur telja að mjórra verði á mununum að þessu sinni. Því er eindregið haldið fram að þau tvö takist á í síðari umferðinni sunnudaginn 24. apríl. Vinstri maðurinn Jean-Luc Melenchon fylgir fast á hæla þeim og vonast til að komast í síðari umferðina, þá á kostnað Le Pen.

Nú eða forsetans sjálfs sem kæmi greinendum verulega á óvart. Helstu stjórnmálaskýrendur vara reyndar við því að niðurstöður kosninganna í dag geti komið á óvart en þátttaka kjósenda hefur mikið að segja um hvernig fer.

Óttast er að fleiri úr hópi 49 milljón kjósenda ákveði að sniðganga fyrri umferðina en gerðist árið 2002. Þá ákváðu 28,4% að halda sig heima en hlutfallið var 22,2% í síðustu kosningum.

Þá náði Jacques Chirac endurkjöri en engum forseta hefur tekist það síðan þá. Le Pen hefur sýnt á sér mýkri hlið í kosningabaráttunni en Frakkar eiga að venjast en lítið hefur sést til Macron sem segist hafa þurft að einbeita sér að viðbrögðum við innrás Rússa í Úkraínu.

Þessi yngsti forseti í sögu Frakklands hefur lagt sig í líma við að tryggja stöðu sína sem helsti leiðtogi Evrópu frá því að Angela Merkel Þýskalandskanslari lét af embætti.

Kjörstaðir í Frakklandi voru opnaðir klukkan sex en kosningabaráttan hefur verið óvenjuleg enda háð í skugga innrásarinnar. Kjörfundur hófst í gær á þeim landsvæðum sem Frakkar ráða á borð við litlar eyjar undan ströndum Kanada, svæði í Karíbahafi og á frönsku Kyrrahafseyjunum.

Útgönguspár munu birtast á helstu sjónvarpsstöðvum um leið og kjörstöðum verður lokað klukkan sex síðdegis. Spár þeirra eru iðulega harla nákvæmar.