Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

FÍB segir tryggingafélög hafa sloppið ódýrt

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Félag íslenskra bifreiðaeiganda (FÍB) segir að Samkeppniseftirlitið hefði fremur mátt sekta tryggingafélög en Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) vegna umræðu um verðlagningu tryggingaiðgjalda. Í mars lagði Samkeppniseftirlitið 20 milljóna króna sekt á samtökin.

Það gerðist í kjölfar kvörtunar FÍB sem vildi fá úr því skorið hvort tvær blaðagreinar birtar á vegum SFF um verðlagningu og þjónustu tryggingafélaganna, brytu í bága við samkeppnislög. FÍB greinir frá þessu á vef sínum.

Mat FÍB er að Samkeppniseftirlitið hefði fremur átt að beina spjótum sínum að tryggingafélögunum sjálfum en samtökum þeirra.

Þannig hefði því átt að miða sektina við veltu félaganna, sem sögð er 80 milljarðar á ári, en ekki veltu SFF sem hefur mun minna umleikis. Því segir FÍB tryggingafélögin hafa sloppið ódýrt frá málinu. 

Mat FÍB er að þá hefði sektin getað numið nærri átta milljörðum króna þar sem samkeppnislög heimila að sektargreiðslur nemi tíu prósentum af veltu brotlegra.

FÍB segir SFF ekki hafa verið að gæta eigin hagsmuna - heldur tryggingafélaganna og fullyrðir að tvö þeirra hafa þrýst á samtökin að réttlæta há iðgjöld fremur en gera það sjálf.