Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

„Ekki efast um getu Finna til skjótra ákvarðana“

epa04883402 Finnish Finance Minister Alexander Stubb arrives for a special Eurogroup Finance ministers meeting, on the Greek crisis, at the European Council headquarters in Brussels, Belgium, 14 August 2015. Greeks members of Parliament have approved on
Alexander Stubb. Mynd: EPA
Finnar búa sig undir að taka sögulega ákvörðun á næstu vikum, það er að ganga til lið við Atlantshafsbandalagið. Fyrrverandi forsætisráðherra Finnlands segir að ekki megi efast um getu landa sinna til að taka skjótar ákvarðanir.

Finnar ákváðu að halda sig utan Atlantshafsbandalagsins sem var stofnað 4. apríl 1949. Herskylda er í landinu enda hefur það á að skipa land-, sjó- og flugher.

Alexander Stubb, fyrrverandi forsætisráðherra Finnlands, segir í samtali við AFP-fréttaveituna Finna nú þurfa að endurskoða samband sitt við Rússa. Stubb var forsætisráðherra frá 2014 til 2015 en hefur einnig gengt embætti fjármála- og utanríkisráðherra.

„Ekki efast um getu Finna til skjótra ákvarðana þegar veröldin breytist,“ segir Stubb sem hefur löngum verið meðmæltur aðild Finna að Atlantshafsbandalaginu.

Mikið fylgi við umsókn

Innrás Rússa í Úkraínu varð til þess að fylgi við aðildarumsókn fór úr 30% upp í 60. Í næstu viku verður ný skýrsla um öryggismál ríkisins færð finnska þinginu til umfjöllunar en hún er unnin að undirlagi ríkisstjórnar Sönnu Marin.

Hún sagði á föstudag að málið yrði rætt af kostgæfni en ekki varið meiri tíma til umræðna en þörf krefur. Marin kvaðst sömuleiðis telja að umsókn um aðild verði lögð fram í maí, tímanlega áður en ráðstefna NATÓ hefst í júní. 

Finnar lýstu yfir sjálfstæði árið 1917 eftir að hafa verið rússneskt sjálfstjórnarsvæði í tæpa öld eða frá 1809. Sovétmenn réðust inn í Finnland 30. nóvember 1939.

Vetrarstríðinu lyktaði með friðarsáttmála þar sem Finnar létu nokkur landamærasvæði af hendi yfir til Sovétmanna. Finnar börðust við hlið Þjóðverja gegn Sovétríkjunum í svokölluðu Framhaldsstríði og svo í Lapplandsstríðinu gegn Þjóðverjum í Norður-Finnlandi.

Eftir að kalda stríðið skall á hétu finnskir stjórnmálamenn hlutleysi gegn loforði Sovétmanna um að ráðast ekki inn í landið. Það ástand var nefnt Finnlandisering.

Stuðningur NATÓ ríkja

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagins, segir dyr þess standa Finnum opnar og það hefur hann sömuleiðis sagt sænskum stjórnvöldum. Bandaríkjamenn, Bretar, Þjóðverjar, Frakkar og Tyrkir hafa  sagst styðja aðild Finna. 

Sauli Niinisto Finnlandsforseti hefur varað við harkalegum viðbrögðum Rússa. Þeir gætu beitt Finna ýmsum aðgerðum, til að mynda tölvuárásum, á þeim tíma sem líður frá umsókn þar til öll ríki NATÓ hafa samþykkt aðild.

Pekka Haavisto utanríkisráðherra segir Finna hafa úthald til að standast allar mögulegar atlögur af hálfu Rússa. Samkvæmt könnun finnska ríkisútvarpsins YLE eru nú aðeins sex þingmenn andvígir aðildarumsókn.

Margir þingmenn hafa skipt um skoðun eftir innrásina í Úkraínu en fram að henni þótti aðild að NATÓ ekki mjög brýn. Helstu rök andstæðinga á þinginu er að Finnar séu fullfærir um að verja sig sjálfir.

Finnar hafa löngum varið talsverðu fé til landvarna og ríkisstjórnin ákvað í síðustu viku 40% hækkun næstu fjögur ár. Alexander Stubb segir að 280 til 300 þúsund hermenn séu reiðubúnir að verja landið og 900 þúsund manna varalið til viðbótar.