Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Berlusconi lýsir þungum vonbrigðum með framferði Pútíns

epa09880839 Former Italian Prime Minister and leader of the Forza Italia party Silvio Berlusconi speaks during a meeting with supporters at a rally in Rome, Italy, 09 April 2022.  EPA-EFE/FABIO FRUSTACI
 Mynd: EPA-EFE - ANSA
Milljarðamæringurinn Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu segist hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með framferði vinar síns Vladimírs Pútín forseta Rússlands.

Þetta kom fram á fjölmennum fundi Berlusconis í Róm, höfuðborg Ítalíu í dag. „Ég get hvorki né vil fela hve hegðun Vladimírs Pútín veldur mér miklum vonbrigðum,“ sagði forsætisráðherrann fyrrverandi.

„Ég hef þekkt hann í um tvo áratugi og mér hefur alltaf fundist sem hann væri maður málamiðlana og friðar,“ bætti hann við.

Berlusconi sagði sömuleiðis að Rússar gætu ekki afneitað ábyrgð sinni varðandi fjöldamorð á almennum borgurum í Bucha og víðar um Úkraínu. Hann sagði raunverulega stríðsglæpi hafa verið framda þar.

Hingað til hefur hann látið hjá líða að gagnrýna innrásina í Úkraínu og Pútín forseta. Berlusconi er 85 ára en var þrisvar forsætisráðherra Ítalíu árin 1994 til 2011.

Á valdatíð sinni hélt Berlusconi nánu sambandi við Pútín sem varð fyrst forsætisráðherra árið 1999. Meðal annars bauð hann Pútín til eyjunnar Sardiníu þar sem hann á glæsihýsi.