Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Nýr hershöfðingi tekur við skipulagningu innrásarinnar

In this pool photo taken on Thursday, March  17, 2016, Russian President Vladimir Putin, left, poses with Col. Gen. Alexander Dvornikov during an awarding ceremony in Moscow's Kremlin, Russia . Dvornikov, who commanded the Russian military in Syria,
Alexander Dvornikov ásamt Vladimir Pútín Rússlandsforseta í Moskvu í síðustu viku, en þá var Dvornikov heiðraður fyrir framgöngu sína í Sýrlandi. Mynd: AP - POOL SPUTNIK KREMLIN
Ónefndur vestrænn embættismaður segir Rússa hafa skipt um æðstráðanda yfir hernaðaraðgerðum í Úkraínu og hyggist þannig endurskipuleggja innrásina. Nýskipaður hershöfðingi hefur mikla reynslu af hernaðarskipulagningu eftir bardaga í Sýrlandi.

Embættismaðurinn ræddi við blaðamann breska ríkisútvarpsins og fór fram á að nafns hans yrði ekki getið. Hann segir hershöfðingjann nýja vera Alexander Dvornikov, sem er ríflega sextugur og margreyndur af ýmsum vígvöllum.

„Hann hefur víðtæka bardagareynslu frá Sýrlandi og því má búast við að skipulagning og stjórn innrásarhersins batni að mun,“ segir heimildamaðurinn.

Hann segir sömuleiðis að annar megintilgangur breytingarinnar sé að auka samhæfingu einstakra hersveita sem hingað til hefur verið skipað hverri fyrir sig.

Rússar virðast ekki hafa náð markmiðum sínum á þeim 44 dögum sem liðnir eru frá upphafi innrásarinnar, þeim hefur mistekist að ná mikilvægum borgum á borð við höfuðborgina Kyiv á sitt vald og hafa nú beint sjónum sínum að Donbas í austurhluta landsins.

Embættismaðurinn segir að Úkraínumenn hafi náð að halda aftur af rússneskum hersveitum þrátt fyrir töluvert minni liðsstyrk, sem hafi komið innrásarliðinu í opna skjöldu.

„Ef Rússar breyta ekki um herkænskuaðferð er erfitt að sjá hvernig þeir ætli sér að ná markmiðum sínum, jafnvel þeim takmarkaðri sem nýverið komu í ljós.“

Embættismaðurinn ónefndi kvaðst búast við að pólítísk markmið gætu tekið við af hernaðarlegum enda telur hann rússneska ráðamenn vilja ná árangri fyrir sigurdaginn 9. maí sem markar endalok síðari heimsstyrjaldar í austurvegi.