Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Tugir létust í loftárás á járnbrautarstöð í Donetsk

08.04.2022 - 12:26
In this photo published on Ukrainian President Volodymyr Zelenskyy's Telegram channel, blood stains are seen among bags and a baby carriage on a platform after Russian shelling at the railway station in Kramatorsk, Ukraine, Friday, April 8, 2022. (Ukrainian President Volodymyr Zelenskyy's Telegram channel via AP)
 Mynd: AP - Telegram
Tugir eru látnir og hátt í hundrað særðir eftir að flugskeyti hæfði lestarstöð í borginni Kramatorsk í austurhluta Úkraínu í dag. Fjöldi fólks var á lestarstöðinni og beið þess að komast frá borginni vegna yfirvofandi loftárása rússneska hersins. Stjórnvöld í Moskvu neita ásökunum um að hafa verið að verki.

Að sögn yfirvalda í Donetsk-héraði eru 39 látnir, þar af fjögur börn, eftir að tvö flugskeyti hæfðu lestarstöðina. 87 særðust í árásinni og fjöldi til viðbótar meiddist lítillega. Þúsundir voru á stöðinni og biðu þess að komast burt frá borginni. Ríkisstjórinn í Donetsk hefur beint því til íbúa héraðsins undanfarna daga að forða sér, þar sem umfangsmiklar hernaðaraðgerðir Rússa í austur- og suðurhéruðum landsins séu yfirvofandi.

Stjórnvöld í Úkraínu segja að rússneski herinn hafi skotið á lestarstöðina. Volodymyr Zelensky forseti sagði hana vera dæmi um takmarkalausa illmennsku Rússa. Þeir bera af sér sakir. Í yfirlýsingu varnarmálaráðuneytisins í Moskvu segir að rússneski herinn noti ekki Tochka-U flugskeyti sem notuð voru í árásinni. Þar að auki hafi engar árásir verið fyrirhugaðar á borgina Kramartorsk í dag. Úkraínumenn hafi sjálfir verið að verki.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og Josep Borrell utanríkismálastjóri greindu frá því á Twitter í dag að þau væru á leið til Kænugarðs, höfuðborgar Úkraínu. Þar hitta þau Zelensky forseta og fleiri ráðamenn.

Atlantshafsbandalagið hét Úkraínumönnum hernaðaraðstoð í gær, vegna yfirvofandi stórsóknar Rússa í austurhlutanum. Slóvakar tilkynntu í dag að þeir hefðu gefið Úkraínumönnum S-300 loftvarnakerfi til að styrkja loftvarnir landsins.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV