
Forseti Mexíkó leggur framtíð sína í hendur kjósenda
Ólíklegt þykir að Andres Manuel Lopez Obrador forseti Mexíkó neyðist til að láta af embætti að atkvæðagreiðslunni lokinni. Kannanir sýna að 60% kjósenda eru ánægðir með störf hans. Morena, flokkur forsetans, tapaði hreinum meirihluta í neðri deild þingsins á síðasta ári.
Obrador segir mikilvægt að leggja störf sín í dóm kjósenda en gagnrýnendur segja að atkvæðagreiðslan sé kostnaðarsamt áróðursbragð af hans hálfu.
Stjórnarandstöðuflokkar hvetja kjósendur til að mæta ekki á kjörstað. Talið er líklegt að fjöldi kjósenda ákveði að hunsa atkvæðagreiðsluna en kjörsókn þarf að fara yfir 40% til að niðurstöðurnar teljist bindandi.
Obrador, sem er 68 ára, var kjörinn forseti Mexíkó 2018 og hét því að umbylta ríkjandi nýfrálshyggjustefnu, sem væri rót spillingar, og binda enda á siðspillingu forréttindastéttar landsins.
Forseta Mexíkó er aðeins heimilt að sitja eitt kjörtímabil. Gagnrýnendur Obradors telja atkvæðagreiðsluna skref í átt að þeirri ætlun hans að sitja lengur. Hann hefur ítrekað lofað að sækjast ekki eftir endurkjöri 2024.
Stjórnmálaskýrandinn Luis Carlos Ugalde segir að Obrador sé popúlisti sem vilji, líkt og aðrir slíkir, viðhalda þeirri trú að þjóðin standi að baki honum. Stuðningur við forsetann var mestur 81% í febrúar 2019 samkvæmt skoðanakönnunum.
Ugalde telur ólíklegt að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar ýti undir að forsetinn sitji lengur en eitt kjörtímabil. Hins vegar geti hagstæð niðurstaða styrkt stjórnarstefnu hans, meðal annars varðandi umbætur í orkumálum.