Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fimm mamma þín-brandarar og brúðkaupsferð á föstudegi

Mynd með færslu
 Mynd: Yung Lean

Fimm mamma þín-brandarar og brúðkaupsferð á föstudegi

08.04.2022 - 17:06

Höfundar

Leikgleðin ræður ríkjum í Fimmunni þennan föstudaginn, en við heyrum meðal annars langdreginn mamma þín-brandara frá Wet Leg, kíkjum í sýrubleytta brúðkaupsferð með Yung Lean og FKA Twigs, og spilum lúmskt erfiðan tölvuleik úr smiðju ericdoa.

Wet Leg - Ur Mum

Indí-dúettinn Wet Leg frá Isle of Wight steig fram á sjónarsviðið í fyrra með miklum látum og þykir með meira spennandi nýliðum um þessar mundir. Sveitin hefur meðal annars sent frá sér smellina Too Late Now og Wet Dream, en í dag kom út fyrsta breiðskífa sveitarinnar. Platan heitir einfaldlega Wet Leg, og fyrr í vikunni birtist tónlistarmyndband við eitt laganna af henni, Ur Mum. Leikgleði og hótfyndni ráða ríkjum í þessu súra en skemmtilega myndbandi sem er eiginlega sex mínútna langur mamma þín-brandari.


Yung Lean, FKA Twigs - Bliss

Sænski erkitöffarinn Yung Lean sendi í dag frá sér spánnýtt mixtape, Stardust, sem er fyrsta útgáfa drengsins dapra í einhver tvö ár. Hann er hér í frábæru formi, eins og heyrist einna best á opnunarlaginu Bliss, sem var unnið í samstarfi við stórstjörnuna FKA Twigs. Þetta er skrítið en stórskemmtilegt stykki, og mun víst byggja á sampli úr lagi eftir sovésku síðpönksveitina Alliance. Auk lagsins kom út tónlistarmyndband fyrr í dag, en það er að minnsta kosti jafn furðulegt og lagið sjálft, og sýnir stjörnurnar tvær í einhvers konar brúðkaupsferð?


ericdoa - lifeline

ericdoa er tæplega tvítugur tónlistarmaður frá krummaskuði í Connecticut (að eigin sögn) og hefur verið að gera tónlist innblásna af sígildri popp-músík og síð-stafrænni fagurfræði síðustu ár. Á tímabili hefði tónlist kappans líklega verið best lýst sem hyper-poppi (hann var reyndar ákveðinn plakatsstrákur þeirrar óræðu stefnu um skeið), en í nýjasta lagi hans, Lifeline, kveður við nýjan tón. Þetta er ákafur en aðgengilegur poppslagari í anda stórsmellsins Stay eftir The kid LAROI og Justin Bieber. Samhliða útgáfu lagsins fyrr í dag kom út lítill tölvuleikur í stíl, sem er merkilega erfiður. Hægt er að spila leikinn hér.


Omar Apollo - Tamagotchi

Bandaríski tónlistarmaðurinn Omar Apollo sendi í dag frá sér sína fyrstu breiðskífu, Ivory. Daniel Caesar og Kali Uchis skjóta bæði upp kollinum á þessari metnaðarfullu frumraun, í lögunum Invincible og Bad Life sem bæði höfðu komið út í aðdraganda plötunnar en lagið Tamagotchi fékk tónlistarmyndband fyrr í dag. Myndbandið fangar anda lagsins nokkuð vel; sýnir tónlistarmanninn hafa það náðugt í góðra vina hópi, ýmist á hljómsveitaræfingum eða djamminu.


Arca - Cayó

Arca er engum lík, en eftir fáránlega sterkt útgáfuár í fyrra (hún sendi frá sér eina stuttskífu og hvorki meira né minna en fjórar breiðskífur), hefur hún tilkynnt að kick-plötukvintettinn sé væntanlegur til útgáfu á fimmföldu vínilplötu-box-setti. Samhliða tilkynningunni sendi hún frá sér nýtt lag, Cayó, auk myndbands sem var frumsýnt á YouTube í gær. Myndbandið er í senn skelfilegt, ægifagurt og stórskrítið, eins og Arca einni er lagið.