Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Aðkoman í Borodjanka sögð verri en í Bucha

epa09875981 A woman walks past an unexploded rocket in the conflict-torn area in the north of the Kharkiv region, Ukraine, 07 April 2022. Russian troops entered Ukraine on 24 February resulting in fighting and destruction in the country, and triggering a series of severe economic sanctions on Russia by western countries.  EPA-EFE/ATEF SAFADI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Úkraínuforseti segir að ástandið í borginni Borodjanka sé enn verra en í borginni Bucha. Þýskt dagblað hefur birt samskipti rússneskra hermanna í Bucha og segir rússneska málaliða hafa komið þar að verki.

Volodomyr Zelensky Úkraínuforseti segir aðkomuna í borginni Borodjanka enn verri en í Bucha þar sem hundruð líka almennra borgara fundust í fjöldagröfum og liggjandi á götum úti. Þetta kom fram í sjónvarpsávarpi Zelenskys í kvöld.

Í dag fundust 26 lík undir rústum tveggja fjölbýlishúsa í Borodjanka. Leit stendur yfir í rústum borgarinnar eftir að rússneskar hersveitir hörfuðu þaðan. Iryna Venediktova, ríkissaksóknari Úkraínu, segir að hvergi hafi orðið meira tjón á höfuðborgarsvæðinu en í Borodjanka.

Hún skrifar á Facebook-síðu sína að rússneskar hersveitir hafi beitt klasasprengjum og eldflaugum gegn óbreyttum borgurum.

Wagner sveitirnar sagðar hafa verið í Bucha

Þýska blaðið Der Spiegel greinir frá því að þýska leyniþjónustan hafi undir höndum upptökur af samskiptum rússneskra hermanna varðandi morð á almennum borgurum í Bucha.

Meðal þess sem heyra má er lýsing hermanns á því hvernig hann skaut manneskju á reiðhjóli til bana. Samkvæmt umfjöllun þýska blaðsins má finna sönnun þess að málaliðar úr rússnesku Wagner-sveitunum hafi átt þátt í morðunum í Bucha.

Samkvæmt umfjöllun Der Spiegel virðist ekkert benda til þess að aðgerðirnar í Bucha hafi verið handahófskenndar eða óskipulagðar. Rússnesk stjórnvöld þvertaka fyrir að eiga nokkurn þátt í dauða borgarbúa. 

Innrásin komin á annað stig

Iryna Vereshchuk, aðstoðarforsætisráðherra Úkraínu, segir að ríflega 3.500 hafi verið flutt frá borgunum Mariupol og Berdiansk í dag og um fjórtán hundruð frá Luhansk. 

Liz Truss, utanríkisráðherra Bretlands, segir að innrásin í Úkraínu sé nú komin á annað stig með því að Rússar einbeiti sér að ákveðnum svæðum. „Pútín hefur breytt um aðferðafræði en ekki lokamarkmið. Hann ætlar að sölsa alla Úkraínu undir sig,“ segir Truss.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, hét Úkraínumönnum í dag að þeim yrði útvegaður aukinn vopnabúnaður. Bandalagsríkin hyggjast einnig auka eigin varnir. 

Dmitry Peskov, talsmaður Rússlandsstjórnar, sagði í samtali við fréttastöðina Sky að mannfall væri töluvert í innrásarliðinu en gaf ekki upplýsingar um hve margir rússneskir hermenn lægju í valnum.

Mánuði eftir innrásina sögðu rússnesk yfirvöld að 1.351 hermaður hefði fallið og 3.285 særst. Úkraínumenn staðhæfa að allt að 20 þúsund Rússar hafi fallið í átökum í landinu.