Ridley Scott tryggir sér kvikmyndarétt að bók Ragnars

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Ridley Scott tryggir sér kvikmyndarétt að bók Ragnars

07.04.2022 - 14:34

Höfundar

Framleiðslufyrirtæki Ridley Scott, Scott Free, hefur tryggt sér kvikmyndarétt að bókinni Úti eftir rithöfundinn Ragnar Jónasson. Ráðgert er að Scott verði framleiðandi að mynd upp úr bókinni ásamt teymi sínu og íslenska framleiðslufyrirtækinu Truenorth. Viðræður eru hafnar við danskan leikstjóra.

Ridley Scott þarf vart að kynna.

Hann er einn fremsti kvikmyndaleikstjóri sögunnar með stórmyndir á borð við Alien, Blade Runner, Thelma & Louise og Gladiator á ferilskránni. Hann var aðlaður af Bretlandsdrottningu árið 2003 fyrir framlag sitt til breskrar kvikmyndagerðar og hefur þrívegis verið tilnefndur til Óskarsverðlauna.

Viðræður hafa verið í gangi síðan snemma hausts í fyrra og stóra myndin lá nokkuð ljóst fyrir áður en bókin kom út. „Þetta er mikill heiður enda einn af bestu leikstjórum kvikmyndasögunnar,“ segir Ragnar í samtali við fréttastofu.  

Áhugi á bókinni kviknaði í fyrrasumar þegar íslenska framleiðslufyrirtækið Truenorth vakti athygli Scott Free á henni.

Bókin var tilbúin í enskri þýðingu og því reyndist auðvelt að senda hana til starfsmanna framleiðslufyrirtækisins sem leist vel á. Ekki skemmdi fyrir að Ridley Scott þekkir vel til verka Truenorth þar sem íslenska fyrirtækið vann fyrir hann við  tökur á kvikmyndinni Prometheus. 

Úti gerist upp á hálendi þar sem fjórir vinir neyðast til að leita skjóls í veiðikofa. Bókinni hefur verið lýst sem sálfræðitrylli. „Þótt bókin sé mjög íslensk þá er þetta fyrst og fremst persónusköpun þar sem fjórir vinir eru inni í þessum kofa og eitthvað gerist..“

Bókin er ekki eina verk Ragnars sem verið er að vinna upp úr.

Bandaríska sjónvarpsstöðin CBS ætlar að gera þáttaröð upp úr Dimmu, Drunga og Mistri sem er þríleikur um lögreglukonuna Huldu. Útibú Warner Bros í Þýskalandi hefur í hyggju að gera þætti upp úr Siglufjarðarbókunum sem hófust með útgáfu Snjóblindu.

„Þetta er svolítið þannig að eitt verkefni kveikir á öðru. Maður er bara mjög heppinn að fá svona þrjá hæfa aðila til að vinna upp úr bókunum og það verður bara spennandi að sjá hvað kemur fyrst. “