Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Ófremdarástand vegna óhóflegra verkefna spítalans

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Forstjóri Landspítalans segir Ísland komið í vandræði varðandi mannafla í heilbrigðisþjónustu, sérstaklega í krefjandi störf sem þarfnist sérþekkingar. Hann hefur fullan skilning á kröfum um að ábyrgð mistaka eigi heima hjá stjórn Landspítala og stjórnvalda, ekki einstökum starfsmönnum. Skyndilausnir dugi ekki til úrbóta. 

Þótt hér sé unnið hörðum höndum við að reisa nýjan spítala þá er langt í það að hann verði fullbúinn. Runólfur Pálsson forstjóri Landspítalans segir að það verði að grípa til aðgerða í heilbrigðiskerfinu strax. Það megi ekki bíða og aðgerðir verði að vera markvissar. Hann tekur undir orð hjúkrunarfræðinga á bráðamóttöku Landspítalans um að komið sé í algjört óefni. Þetta gangi ekki lengur 

Skiljanlegt er að starfsfólk vísi ábyrgðinni á mögulegum mistökum yfir á stjórn spítalans og stjórnvöld miðað við þær starfsaðstæður sem eru í boði, að sögn Runólfs Pálssonar. Málið sé erfitt að eiga við þótt þrotlaust sé unnið að lausn. Landspítali og starfsfólk sé bundið að lögum þegar alvarleg atvik komi upp. Í raun sé það kerfisvandi en ekki einstakra starfsmanna þegar atvik komi upp. Það ríkir ófremdarástand vegna óhóflegra verkefna og manneklu og þetta er náttúrulega krítískur staður bráðamóttakan þar sem við verðum að taka við okkar veikasta fólki ásamt slösuðum og viljum náttúrulega tryggja öryggi þeirra en þegar við búum við það að flest stæði á bráðamóttökunni eru upptekin vegna einstaklinga sem að hafa þegar verið lagðir inn en fá ekki legurými þá er ljóst að það er erfitt að taka við nýjum þegar það er líka skortur á starfsfólki þá verður staðan mjög erfið og þess vegna eru áhyggjur starfsfólksins mjög skiljanlegar.

Við erum í ákveðinni sjálfheldu eins og er."  „Þú  ert nýr forstjóri Landspítalans hvað ætlar þú að gera til að þetta breytist og að við séum ekki hér eftir fimm ár að taka sama viðtalið?"  „Ég ætla nú að reyna að koma því til leiðar að þeir einstaklingar sem njóta þjónustu Landspítalans en geta fengið þjónustu á öðru þjónustustigi fari þangað það myndi skapa  miklu betri aðstöðu fyrir okkur að sinna þeim verkefnum sem eiga heima innan spítalans."

Samvinna við aðrar stofnanir á höfuðborgarsvæðinu við heilsugæslu og þá sem sinni öldrunarþjónustu sé nauðsyn til að bæta úr þessu. Fjórðungur spítalans er nú nýttur fyrir öldrunarþjónustu, verulegur hluti þess hóps gæti verið annars staðar, að mati forstjórans. 

Ólöf Rún Skúladóttir
Fréttastofa RÚV