
Listi yfir kaupendur í Íslandsbanka opinberaður
Lögðust gegn því að listinn yrði birtur
Ráðuneytið óskaði eftir listanum 30. mars og skírskotaði til laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, þar sem lögð er áhersla á gagnsæi við sölu hluta. Degi síðar fékk ráðuneytið svar frá Bankasýslunni þess efnis að óvarlegt væri að birta upplýsingar um mótaðila ríkisins í viðskiptunum, með vísan til laga um fjármálafyrirtæki, er varðar bankaleynd.
1. apríl óskaði ráðuneytið þá eftir afstöðu fjármálaeftirlitis Seðlabanka Íslands til þess hvort lagaákvæði um bankaltbd stæði því í vegi að upplýsingarnar yrðu gerðar aðgengilegar. Ráðuneytinu hefur ekki borist svar frá Seðlabankanum.
Sendu listann með ítrekun á afstöðu
Listinn barst ráðuneytinu hins vegar í dag, en þar er afstaða Bankasýslu ríkisins ítrekuð - að óvarlegt sé að gera yfirlitið aðgengilegt almenningi.
Að mati ráðuneytisins falla upplýsingar um viðskipti á milli ríkissjóðs og fjárfesta aftur á móti ekki undir bankaleynd og með hliðsjón af mikilvægi þess að gagnsæi ríki um ráðstöfun opinberra hagsmuna er ákveðið að birta yfirltiið, að því er fram kemur á vef Stjórnarráðsins.
Mikil eftirspurn var eftir hlutum í bankanum. Alls buðu 430 fjárfestar í 450 milljón hluti. 450 milljón hlutir í bankanum voru seldir á genginu 117 krónur á hlut eða samtals fyrir 52,7 milljarða króna. 209 hæfir fjárfestar tóku þátt.
Hér má sjá listann yfir kaupendur í heild sinni.