Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Listi yfir kaupendur í Íslandsbanka opinberaður

Höfuðstöðvar Íslandsbanka
 Mynd: RÚV
Fjármálaráðuneytið birti síðdegis lista yfir þá sem keyptu 22,5 prósent hlut ríkisins í Íslandsbanka. Samtals tóku 209 fjárfestar þátt í útboðinu. Þar voru lífeyrissjóðirnir áberandi. Stærsti einstaki kaupandinn var Gildi lífeyrissjóður sem keypti 30 milljón hluti fyrir rúma þrjá og hálfan milljarð. Þar á eftir koma Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins , Brú lífeyrissjóður og lífeyrissjóður verslunarmanna. Aðrir voru undir fjórum prósentum af heildarsölunni.

Lögðust gegn því að listinn yrði birtur

Ráðuneytið óskaði eftir listanum 30. mars og skírskotaði til laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, þar sem lögð er áhersla á gagnsæi við sölu hluta. Degi síðar fékk ráðuneytið svar frá Bankasýslunni þess efnis að óvarlegt væri að birta upplýsingar um mótaðila ríkisins í viðskiptunum, með vísan til laga um fjármálafyrirtæki, er varðar bankaleynd. 

1. apríl óskaði ráðuneytið þá eftir afstöðu fjármálaeftirlitis Seðlabanka Íslands til þess hvort lagaákvæði um bankaltbd stæði því í vegi að upplýsingarnar yrðu gerðar aðgengilegar. Ráðuneytinu hefur ekki borist svar frá Seðlabankanum. 

Sendu listann með ítrekun á afstöðu

Listinn barst ráðuneytinu hins vegar í dag, en þar er afstaða Bankasýslu ríkisins ítrekuð - að óvarlegt sé að gera yfirlitið aðgengilegt almenningi. 

Að mati ráðuneytisins falla upplýsingar um viðskipti á milli ríkissjóðs og fjárfesta aftur á móti ekki undir bankaleynd og með hliðsjón af mikilvægi þess að gagnsæi ríki um ráðstöfun opinberra hagsmuna er ákveðið að birta yfirltiið, að því er fram kemur á vef Stjórnarráðsins. 

Mikil eftirspurn var eftir hlutum í bankanum. Alls buðu 430 fjárfestar í 450 milljón hluti. 450 milljón hlutir í bankanum voru seldir á genginu 117 krónur á hlut eða samtals fyrir 52,7 milljarða króna. 209 hæfir fjárfestar tóku þátt. 

Hér má sjá listann yfir kaupendur í heild sinni.