Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ivanka Trump bar vitni um innrásina í þinghúsið

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia
Ivanka Trump, fyrrum ráðgjafi Hvíta hússins og dóttir fyrrverandi Bandaríkjaforseta, bar vitni í gær fyrir þingnefndinni sem rannsaka innrásina í bandaríska þinghúsið í janúar á síðasta ári.

Um 800 stuðningsmenn Donalds Trumps, þáverandi Bandaríkjaforseta, ruddust inn í þinghúsið í Washington-borg 6. janúar en þingmenn höfðu þá komið saman til að staðfesta niðurstöður forsetakosninganna í nóvember.

Um 140 manns slösuðust í átökum innrásarmanna við lögreglu og öryggisverði þinghússins. Þá var einn skotinn til bana af lögreglu í árásinni og þrír létust „af heilsufarsástæðum“.

Ivanka var beðin um að veita frásögn af athöfnum föður síns í aðdraganda innrásarinnar. Hún var ein af mörgum aðstoðarmönnum sem sögð er hafa reynt að sannfæra forsetann um að fordæma ofbeldið. Eiginmaður hennar og einnig fyrrverandi ráðgjafi Hvíta hússins, Jared Kushner, kom einnig fyrir þingnefndina fyrir örfáum dögum.

Að sögn bandarískra fjölmiðla stóðu yfirheyrslur yfir í hátt í átta klukkustundir. Ólíkt öðrum vitnum sem kölluð voru fyrir nefndina reyndi Ivanka aldrei að beita sér fyrir þagnarrétti sínum, að sögn æðsta formanns nefndarinnar.