Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Hafa aflað húsnæðis fyrir um 1.000 úkraínska flóttamenn

An internally displaced girl waits for family members outside the bus as they arrive in Zaporizhzhia, Ukraine, Friday, April 1, 2022. (AP Photo/Felipe Dana)
 Mynd: AP - RÚV
Tekist hefur að afla húsnæðis sem dugar fyrir um 1.000 úkraínska hælisleitendur hverju sinni. Þetta segir í tilkynningu frá Framkvæmdasýslunni - ríkiseignum (FSRE). Félagsmálaráðuneytið bað FSRE um að aðstoða við útvegun húsnæðis fyrir úkraínskt flóttafólk um miðjan mars.

„Húsnæðið stendur hælisleitendum til boða í mislangan tíma, allt frá tveimur vikum og upp í einhverja mánuði. Um er að ræða tugi þúsunda gistinótta í vönduðu húsnæði sem tilbúið er til gistingar. Húsnæðið er staðsett á suðvesturhorn landsins, í ljósi þess hvar flóttamenn flæða inn til landsins,“ segir í tilkynningunni.

Alls er 70% húsnæðisins vegna fyrstu dvalar á Íslandi og 30% eru í svokallaðri millilendingu, úrræði sem duga á þann tíma sem líður frá því að hælisleitandi hefur fengið landvistarleyfi og fer úr umsjá Útlendingastofnunar, þar til sveitarfélög geta tekið við fólkinu, segir í tilkynningunni enn fremur.

FSRE segir nokkra einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir hafa ákveðið að innheimta ekki leigu fyrir húsnæði sitt. Þar er um að ræða pláss fyrir ríflega 600 manns. Samanlagt eru nú samningar í gildi um húsnæði fyrir 2.000 hælisleitendur.

„Enn gæti verið þörf fyrir meira húsnæði. Bendir FSRE öllum sem boðið geta fram húsnæði að skra eign sína á fsre.is.“

Þórgnýr Einar Albertsson