Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Forseti Sri Lanka glatar meirihlutastuðningi þingsins

epa09870266 People protest, calling for the president’s resignation over the alleged failure to address the economic crisis, in Colombo, Sri Lanka, 04 April 2022. The country declared a state of public emergency amid rising protests. Sri Lanka faces its worst economic crisis in decades due to the lack of foreign exchange, resulting in severe shortages in food, fuel, medicine, and imported goods.  EPA-EFE/CHAMILA KARUNARATHNE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Nokkrir fyrrum bandamenn Gotabaya Rajapaksa, forseta Sri Lanka, krefjast afsagnar hans í kjölfar mikilla mótmæla. Stjórnin hefur misst meirihluta sinn á þinginu. Mikil kreppa ríkir í landinu og skortur á eldsneyti og matvöru.

Upplausn ríkir innan áður öflugrar samsteypustjórnar forsetans en hún er nú aðeins skipuð forseta og forsætisráðherra eftir að allir ráðherrar sögðu af sér á sunnudaginn.

Nýskipaður fjármálaráðherra yfirgaf stjórnina í gær sólarhring eftir útnefningu. Rajapaksa ákvað á fimmta degi mótmæla að aflýsa neyðarástandi sem lýst var yfir í landinu á föstudag.

Mótmælendur krefjast afsagnar forseta og ríkisstjórnar vegna meintrar spillingar og óstjórnar. 

Mannfjöldi hefur reynt að gera atlögu að heimilum háttsettra embættis- og stjórnmálamanna. Hátt í sjötíu hafa verið handteknir í mótmælunum og einhverjir segjast hafa verið pyntaðir í haldi lögreglu.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNHCR, kveðst fylgjast grannt með þróun mála á Sri Lanka sem liggur þegar undir þungu ámæli vegna stöðu mannréttinda.

Wijeyadasa Rajapakshe, nú óháður þingmaður sem áður studdi forsetann, segir að brýnt sé að koma á bráðabirgðastjórn í landinu til að bregðast við efnahagsvandanum. Annars gæti illa farið.

Þrátt fyrir að stjórnin hafi tapað meirihluta sínum er ekki útlit fyrir að þingið lýsi yfir vantrausti á stjórnina að svo komnu máli.