Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Ástand á bráðamóttöku það versta í áratug segir fagfólk

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hjúkrunarfræðingar á Bráðamóttöku krefjast þess að stjórnvöld og Landspítali staðfesti skriflega að ábyrgðin liggi þar en ekki hjá hjúkrunarfræðingum, komi upp alvarleg atvik sem rekja megi beint eða óbeint til álags á Bráðamótttökunni. Ástandið á Bráðamóttökunni sé það versta sem komið hefur upp í rúman áratug.

 

Hjúkrunarfræðingar á bráðamóttöku Landspítalans telja ekki réttlætanlegt að þeir beri ábyrgð á öryggi sjúklinga við það óboðlega ástand sem ríki á bráðamóttöku spítalans

Trúnaðarmenn hjúkrunarfræðinga á Bráðamóttökunni hafa sent frá sér yfirlýsingu fyrir hönd hjúkrunarfræðinga á deildinni þar sem því er mótmælt að Landspítalinn hafi verið tekinn af neyðarstigi yfir á hættustig. Stærsta bráðamóttaka landsins sé illa í stakk búin til að vera í viðbragðsstöðu og sinna skilgreindu hlutverki sínu. Hjúkrunarfræðingar segja ástandið löngu orðið óboðlegt bæði starfsfólki og sjúklingum. Vandamál spítalans kristallist á Bráðamóttökunni.

Anna G. Gunnarsdóttir hjúkrunarfræðingur hefur starfað á bráðamóttökunni í rúman áratug.
„Staðan er einfaldlega orðin þannig á Bráðamóttökunni  að hvort sem að það eru hjúkrunarfræðingar eða læknar eða sjúkraliðar að þá sjáum við bara fram á það að þetta er bara ekki hægt. Við þetta verður ekki unað.Það er auðvitað komin upp sú staða á bráðamóttökunni sem engan hefði getað órað fyrir að gæti komið upp. Vegna þess að það vantar orðið mjög marga hjúkrunarfræðinga. Við misstum hjúkrunarfræðinga hér 1. mars það vantar í stöðugildi alls 20 hjúkrunarfræðinga ofan á þetta bætist að innlagnavandi spítalans er gríðarlega mikill og það birtist á Bráðamóttökunni. Þannig að bráðveikir sem koma inn á bráðamóttöku þeir leggjast ekki inn fyrr en eftir 2 til 3 daga sem gerir okkur á bráðamóttökunni mjög erfitt fyrir að sinna okkar hlutverki að taka á móti bráðveikum og slösuðum."

Hjúkrunarfræðingar telja sig ekki geta sinnt starfi sínu eins og til er ætlast. Hvorki geti þeir tryggt öryggi sjúklinga né starfsfólks í því óviðunandi umhverfi sem boðið sé upp á af hálfu stjórnvalda og stjórnar spítalans.
Og í sumar er Bráðamóttakan í fyrsta sinn að ráða inn mikinn fjölda af nemum og nýútskrifuðum hjúkrunarfræðngum og þá auðvitað vaknar sú spurning hjá okkur sem fyrir erum hvar er ábyrgðin ef eitthvað fer úrskeiðis mistök eða alvarleg atvik. Er það neminn er það vaktstjórinn hjúkrunarfræðingurinn sem að er bak við nemann af því að það er líka eitt af stóru hlutverkum spítalans að sinna nemum og kennslu nema það er gríðarlega mikilvægt en þetta er alltaf að verða erfiðara og erfiðara."

 

Ólöf Rún Skúladóttir
Fréttastofa RÚV