Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Útilokar ekki að vísa sendiherra Rússlands úr landi

05.04.2022 - 13:51
Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, utanríkisráðherra, útilokar ekki að sendiherra Rússlands á Íslandi verði vísað úr landi. Það gæti þó haft þau áhrif að sendiráð Íslands í Rússlandi yrði óstarfhæft.

„Litháen tók ákvörðun um að vísa sendiherra frá landi en er ekki að slíta stjórnmálasambandi við Rússland. Það skiptir máli að gera greinamun þarna,“ segir Þórdís Kolbrún. „Svo sjáum við ríki sem eru að senda fjölda stafsmanna til baka, málið er að hér erum við með örfáa og ef við gerum ráð fyrir að Rússar svari í sömu mynt, þá erum við með óstarfhæft sendiráð í Moskvu,“ segir Þórdís Kolbrún. „Hins vegar, ég útiloka ekkert í þeim efnum.“

Hún fordæmir aðfarir Rússa í Úkraínu. „Þetta er einhvern veginn algjörlega ómennsk framganga sem þarna virðist hafa átt sér stað. Nú er verið að safna sönnunargagna um það sem virðist blasa við. Þó að manni megi ekki fallast hendur, þá þegar maður sér svona myndir, það er einfaldlega þyngra en tárum taki,“ segir Þórdís Kolbrún.