
Orð Sigurðar Inga gætu reynst honum dýr
Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna, greindi frá því á Facebook í gær að Sigurður Ingi hefði notað særandi orð um hana sem tengudst húðlit hennar. Síðan bað Sigurður Ingi Vigdísi afsökunar á orðum sínum, sem hann sjálfur skilgreindi sem óviðurkvæmileg. Andrés Jónsson almannatengill segir að það sé ekki trúverðugt að segjast ekki vera með kynþáttafordóma en láta þó ummæli falla sem bendi til slíks
„Með því að biðjast afsökunar kemur þetta út eins og hann sé að staðfesta ummæli sem bera vott um kynþáttafordóma. Þetta eru sjokkerandi orð,“ segir Andrés.
Hann segir að ekki hafi komið skýrt fram í hvaða samhengi þessi orð voru látin falla. „En þetta eru allavegana mjög dýr orð sem þarna hafa fallið og gætu haft einhver pólitísk eftirmál fyrir flokkinn og hann sjálfan.“
Nú hafa komið kröfur og áskoranir um ýmsum áttum um að Sigurður Ingi stígi til hliðar, er líklegt að svo verði, sé miðað við íslenska stjórnmálasögu? „Ég tel það frekar ólíklegt. Þetta er þannig mál að það geti verið dýrt, það gæti verið dýrt í nánast hvaða landi sem er,“ segir Andrés.
Segir að samhengið skipti máli
Hann segir að samhengið og um hvern sé að ræða skipta máli í þessu samhengi. „Sigurður Ingi hefur ekki verið þekktur að kynþáttafordómum. Hann hefur ekki verið að beita sér svo ég viti til með neinum hætti gegn mannréttindum eða réttindum fólks af erlendum uppruna. Svona einangrað tilvik sem hann biðst afsökunar á og segist þurfa að bæta sig sem manneskju; held ég ekki að leiði til þess að hann segi af sér,“ segir Andrés.